Vegna verslunarumsvifa þinna
fylltist þú ofríki
svo að þú syndgaðir.
Þá rak ég þig,
hinn verndandi kerúb,
og rak þig af guðafjalli,
burt frá hinum glóandi steinum.
En fegurð þín fyllti þig hroka
og þú spilltir visku þinni
vegna ljóma þíns.
Ég fleygði þér til jarðar,
fyrir fætur konunga,
svo að þeir gætu notið þess að horfa á þig.
Þú vanhelgaðir helgidóma þína
með þinni miklu sekt
og óheiðarlegum viðskiptum.
Ég lét því eld brjótast út í þér
sem eyddi þér.
Ég gerði þig að ösku á jörðinni
fyrir augum allra sem horfðu á þig.
Allar þjóðir, sem þekktu þig,
hryllti við þér.
Endalok þín skelfa,
þú ert með öllu horfinn.

Orð Drottins kom til mín: Mannssonur, snúðu þér að Sídon, spáðu gegn henni og segðu: Svo segir Drottinn Guð:
Nú held ég gegn þér, Sídon:
Ég ætla að birta dýrð mína innan múra þinna,
íbúar þínir munu skilja að ég er Drottinn
þegar ég fullnægi refsidómnum yfir borginni
og birti heilagleika minn í henni.
Ég sendi drepsótt gegn henni
og blóð á stræti hennar.
Vegnir falla í borginni
fyrir sverði sem sækir hvarvetna að.
Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.