Mennirnir spurðu Lot: „Hverja aðra átt þú þér nákomna hér? Tengdasyni, syni, dætur eða aðra sem þú átt að í borginni skaltu hafa á burt héðan. Við munum tortíma þessum stað vegna þess að neyðaróp fólks, sem borist hafa til Drottins, eru svo mikil að hann sendi okkur til þess að tortíma borginni.“
Þá fór Lot út og talaði við tengdasyni sína sem ætluðu að eiga dætur hans og mælti:
„Takið ykkur upp og farið úr þessum stað. Drottinn hefur ofurselt borgina tortímingu.“
En tengdasynirnir héldu að hann væri að gera að gamni sínu.
Þegar dagaði ráku englarnir á eftir Lot og sögðu: „Taktu þig upp og hafðu konu þína og dætur þínar tvær, sem hjá þér eru, með þér, að þær tortímist ekki vegna syndar borgarinnar.“
En Lot fór hægt að öllu svo að mennirnir tóku í hönd honum og í hönd konu hans og dætranna beggja, fyrir miskunn Drottins við þau, og leiddu þau í öruggt skjól utan borgar.
Þegar þeir höfðu leitt þau út sögðu þeir: „Forðið ykkur. Líf ykkar liggur við. Lítið ekki um öxl, nemið hvergi staðar á sléttunni, flýið til fjalla svo að þið tortímist ekki.“
En Lot sagði við þá: „Nei, herra minn.