Hlýð þú, þjóð mín, á kenningu mína,
legg eyrun að ræðu munns míns.
Ég vil opna munn minn með líkingu
og túlka liðna tíð.
Það sem vér höfum heyrt og þekkjum
og feður vorir sögðu oss frá
ætlum vér ekki að dylja fyrir börnum þeirra
heldur segja komandi kynslóð
frá dáðum Drottins og mætti hans
og máttarverkunum sem hann vann.
Hann setti Jakobi reglur
og lögmál í Ísrael
sem hann bauð feðrum vorum
að kenna börnum sínum
svo að komandi kynslóð nemi
og börn, sem síðar fæðast,
gangi fram og segi sínum börnum.
Þau setji traust sitt á Guð,
gleymi ekki stórvirkjum Guðs
og varðveiti boðorð hans
en verði ekki eins og feður þeirra,
þrjósk og ódæl kynslóð,
reikul í ráði
með anda ótrúan Guði.