Guð, hví hefur þú hafnað oss að fullu,
hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
Minnstu safnaðar þíns
sem þú forðum leystir út þér til eignar,
minnstu Síonarfjalls þar sem þú settist að.
Bein skrefum þínum að rústunum endalausu,
óvinurinn eyddi öllu í helgidóminum,
fjandmenn þínir höfðu uppi háreysti á samkomustað þínum
og reistu þar hermerki sín.
Þeir hjuggu eins og sá
sem sveiflar öxi í þéttum skógi,
brutu útskurðinn með öxum og hömrum
og lögðu eld í helgidóm þinn,
vanhelguðu bústað nafns þíns og jöfnuðu við jörðu.
Þeir hugsuðu með sér: „Vér munum undiroka þá alla.“
Þeir brenndu öll guðshús í landinu.
Vér sjáum ekki táknin sem oss voru ætluð,
þar er enginn spámaður framar,
enginn meðal vor veit hve lengi þetta varir.
Hversu lengi, Guð, fær andstæðingurinn að hæða þig?
Á óvinurinn að smána nafn þitt um aldur og ævi?
Hví dregur þú að þér hönd þína,
hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?