Hið íslenska biblíufélag verður 200 ára á næsta ári. Þá er ætlunin að gera tvær af eldri íslensku heildarútgáfum Biblíunnar stafrænt aðgengilegar með því að vélrita þær og færa stafsetninguna til nútímahorfs.
Á öðrum tungumálum eru flestar eldri Biblíuþýðingar allar fáanlegar og aðgengilegar almenningi. Íslensku Biblíuþýðingarnar eru ríkur partur af menningararfleifð okkar og sögu og hafa því gildi fyrir alla þjóðina. Að gera þær aðgengilegar myndi enn fremur auðvelda og styrkja rannsóknarstörf guðfræðinga hér á landi. Þetta verkefni er því tímabært og nauðsynlegt.
Af tólf heildarútgáfunum eru aðeins nokkrar heilar frumþýðingar og geta þær talist mikilvægustu útgáfurnar.
Ætlunin er að gefa út í stafrænu formi Steinsbiblíu frá 1728. Biblían var kennd við Stein Jónsson biskup á Hólum í Hjaltadal. Undirbúningur útgáfunnar hófst um 1720 en talið er að Steinn hafi haft til hliðsjónar bæði danska og þýska Biblíuútgáfur. Steinsbiblía er lítið eitt minna í broti en Guðbrandsbiblía (1584) og Þorláksbiblía ( 1644) en þykkari.
Jón Hjörleifur Stefánsson, MA í guðfræði við Andrews háskóla í Michigan annast verkefnið. Einnig verður gefin út Viðeyjarbiblía frá árinu 1841. Hún er sjötta heildarútgáfa Biblíunnar.
Viðeyjarbiblían var prentuð í Viðey á Sundum, í prentsmiðju Ólafs Stephensens. Viðeyjarbiblían telst vera nýþýðing Biblíunnar á íslensku, þ.e. þar sem textinn er endurþýddur í heild sinni.