Nana Wad er pistlahöfundur og skrifar í dagblöð og tímarit í Danmörku. Hún er ein þeirra sem hafa lagt til efni í bókina „Daglegt brauð“ sem gefið er út af forlagi Biblíufélagsins í Danmörku.
„Mér finnst það veita mér öryggi að hafa Biblíuna nálæga, að hafa hana mína í hillunni og geta alltaf nálgast hana. Mér þykir vænt um þessa bók, hún er stór og þykk og ég hugsa stundum með mér að ég ljúki því aldrei að lesa hana alla“.
Nana Wad skrifar að henni finnist bókin vera sjálfshjálparbók, hún finnur svör í Biblíunni sem annars eru að finna í sálfræði- eða sjálfshjálparbókum.

„Sálfræðileg málefni eins og t.d. sorg, afbrýðissemi, völd og kærleikur eru meðal þeirra atriða sem fjallað um í Biblíunni á góðan og uppeldisfræðilegan hátt með líkingum og öðrum frásögnum Biblíunnar“

Nana bendir á að í Biblíunni er tekist á við spurningar lífsins og það sé auðvelt að samsama sig textanum. Hún segir Biblíuna vera stórkostlega myndræna og fjalla um mikilvæg grunngildi í gegnum drama, líkingar, gaman og alvöru, svo að flestir geta skilið og samsamað sig textanum.
Það er ekki langt síðan Nana Wad missti foreldra sína og hún hefur leitað huggunar og styrks með lestri Biblíunnar.

„Biblían hefur hjálpað mér og veitt stuðning þó svo að ég hafi kannski ekki gert mér grein fyrir því að ég þurfti á því að halda fyrr en eftir á“.

Nana hefur dálæti á, lesið og leitað huggunar í Prédikaranum.

„Ég fæ næstum því gæsahúð þegar ég les í 3. kafla Prédikarans. Fyrir mér er textinn fullur af visku, fallegur og tímalaus“ segir Nana.
Prédikarinn 3:1-4
Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma.

Nana heldur áfram og segir: „Prédikun Salómons konungs fjallar um gleði okkar og sorgir og hvernig það er að ganga í gegnum lífið, frá barnsaldri þangað til maður deyr. Þetta er mjög falleg og róandi frásaga“. En þrátt fyrir að henni þyki mjög vænt um Biblíuna þá á hún erfitt með að skilja og samsama sig sögunni um fórn Ísaks.
„Abraham er ruglaður í höfðinu og upptekinn af sjálfum sér, en þegar hann ætlar að fórna syni sínum segir Guð við hann:  „Ég ætlaði bara að prófa þig og sjá trúfesti þína og hollustu. Það er einfaldlega það grimmilegasta. Það er óttablandin stjórnun“.
Nana hefur verið hugsi yfir þessari frásögu frá því að hún var lítil og getur ekki komist hjá því að ímynda sér hvernig Ísak hefur liðið allt sitt líf vegna þessarar reynslu.
„En þetta sýnir einnig ófullkomleika manneskjunnar. Abraham er sterkur maður sem getur og kann allt en þá brestur eitthvað innra með honum og hann er jafnvel tilbúinn að drepa son sinn“.
Nönu finnst þessi dæmi um hið harða valdsboð Guðs Gamla testamentisins ekki benda til þess Guðs sem hún þekkir af frásögnum Nýja testamentinsins og hún trúir á:
„Guð Gamla testamentisins er miklu harðari og miskunnarlausari en sá faðir sem birtist okkur í Nýja testamentinu, þegar Jesús kemur til sögunnar“.

lausl. Þýðing frá http://bibelselskabet.dk/nyheder/nyhedsoversigt/arkiv2016/nana_wad