Biblían – bók bókanna. Hvers vegna hún? Jú, hún er grundvallarrit kristinnar trúar, útbreiddasta bók veraldar, vonandi sú mest lesna. Íslendingum hefur hún fylgt frá upphafi. Í nokkrar aldir var Biblía Vesturlanda fyrst og fremst hin latneska útgáfa en Biblían öll kom út í íslenskri þýðingu árið 1584, kennd við Guðbrand Þorláksson, biskup á Hólum. Það var ekki fyrr en með fimmtu útgáfu Biblíunnar árið 1813 sem Biblían varð almenningseign og alls eru útgáfur hennar ellefu talsins, nú síðast Biblía 21. aldar sem kom út árið 2007.
Biblíuna eignaðist ég á æskuárum og ég einsetti mér þá, sem ungur maður að lesa Biblíuna spjalda á milli, svo ég gæti sagst hafa lesið hvert einasta orð. Það hef ég reyndar ekki gert síðan, en á náttborði mínu liggur Biblían mín og orð úr henni hafa verið mér sem daglegt brauð á lífsgöngunni. Morgunblaðið birtir dagleg biblíuvers og ég þakka fyrir það.
,,Hvaða trúarbrögð sem er, mér er nokkuð sama hvað fólk vill eyða ævinni í að trúa,“ las ég í Morgunblaðinu sumarið 2014. Mér er ekki sama. Trúarlegar og andlegar þarfir eru samofnar manneskjunni og birtast m.a. í leit að tilgangi og merkingu í lífið. Í hvers kyns trúarbrögðum, trúleysi og andlegri tjáningu er hægt að greina þessa þrá og þörf. Inn í þetta kemur boðskapur kristninnar sem er ólíkur öllu öðru. Fyrir mér er kristin trú einstök og þær áherslur sem þar er að finna og nú þegar jólin nálgast erum við minnt á þennan boðskap enn á ný. Guði sem skapar er umhugað um manneskjuna, leitar hennar, frelsar og fyrirgefur fyrir Jesú Krist. Hann er kærleikurinn og býður vináttu sína og samfylgd sem mótast af því að vera öllu samferðafólki okkar það sem við viljum að það sé okkur.
Ég er þakklátur fyrir að hafa fæðst í kristnu landi, verið skírður, fermdur, átt í trúarbaráttu, efast, sannfærst og efast á ný, en varðveist í kristinni trú, mótast af kristnum lífsgildum og viðhorfum í daglegu lífi. Uppeldi góðra foreldra, boðun kirkjunnar, kristileg áhrif í þjóðfélaginu og lestur Biblíunnar hefur allt stuðlað að þessu. Ég trúi á Guð föðurinn, soninn og heilagan anda og bið að sem flestir finni til nærveru hans í sínu daglega lífi og kærleikurinn megi ráða ríkjum í samskiptum okkar á meðal.
En hvers vegna er ég hinn raunvísindasinnaði læknir að fjalla um Biblíuna og mikilvægi hennar? Vegna þess að kristin trú og raunvísindi eru í mínum huga engar andstæður heldur fjalla um mannlega tilveru út frá ólíkum forsendum. Raunvísindin fást við hinn náttúrulega efnislega heim og auka þekkingu á ótal sviðum. Bak við þetta allt er Hin æðsta kærleiksríka vitsmunavera – Guð.
Lesum Biblíuna, sameinumst í útbreiðslu hennar. Styðjum við starf Hins íslenska biblíufélags.
Ásgeir B. Ellertsson
Höfundur er doktor í læknisfræði og sérfræðingur í heila og taugalækningum.