Í tilefni af 200 ára afmæli Biblíufélagsins á Íslandi gefur Pósturinn út afmælisfrímerki 30. apríl.  Oscar Bjarnason hannaði fallegt frímerki en hann er grafískur hönnuður.  Í  Frímerkjafréttum fyrir árið 2015 birtist eftirfarandi texti:
Hið íslenska biblíufélag
Biblíufélagið er elsta starfandi félag landsins, stofnað 10. júlí árið 1815 og fagnar 200 ára afmælisári. Markmið félagsins hefur alla tíð verið að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar. Félagið tekur þátt í starfi Sameinuðu Biblíufélaganna, United Bible Societies, UBS og nýtur einnig velvilja Biblíufélaganna á Norðurlöndunum.
Hið íslenska Biblíufélag var stofnað á prestastefnu í Reykjavík 10. júlí 1815 og er því elsta starfandi félag landsins. Ebenezer Henderson átti frumkvæðið að stofnun þess og naut hann stuðnings áhrifamanna, og frá upphafi var félagið algjörlega á íslenskum höndum. Þessir menn hljóta því að teljast meðstofnendur þess, og má raunar skipa þeim í tvo flokka. Í þrengri hópnum eru þeir embættismenn kirkju og þjóðlífs, sem Henderson ræddi við fyrir stofnfundinn. En í hinum flokknum eru svo fulltrúar þjóðarinnar eða kirkjunnar 19 eða 22 talsins, er sátu stofnfundinn og léðu málefninu stuðning sinn með því að undirrita stofnskjal félagsins, 10. júlí 1815.  Stofnun Hins íslenska Biblíufélag er talinn einn merkasti atburðurinn í íslensku kirkjulífi á fyrsta aldarfjórðungi 19. aldar.

Sex ný frímerki koma út þennan dag með afmælisfrímerki HÍB og ein smáörk. Gömul leikföng eru sameiginlegt þema Evrópufrímerkjanna árið 2015.  Smáþjóðaleikarnir 2015 er heiti þriðju útgáfunnar og sú fjórða er tileinkuð 100 ára kosningarétti kvenna á Íslandi. Að lokum er gefið út frímerki og smáörk í tilefni þess að íslenski fáninn er 100 ára.

Þessi frímerki má sjá á eftirfarandi slóð.

http://stamps.postur.is/frettastofan/frettir/frett/2015/04/16/ny-frimerki-30-april