„Þegar mamma les fyrir mig úr Biblíunni, er ég ekki eins hræddur,“ segir Vladik frá Luthansk. Hann flúði ásamt fjölskyldu sinni til Kharkiv. Þar tók á móti honum kona að nafni Vera en hún hefur tekið á móti þúsundum fjölskyldna, eins og þeirri sem hinn sex ára Vladik tilheyrir. Síðan í fyrrasumar hefur hún aðstoðað sjálfboðaliða við móttökumiðstöð flóttafólks í heimaborg sinni.
„Andrúmsloftið við járnbrautarstöðina var í upphafi afar harmþrungið,“ segir Vera. „Húsin og göturnar á heimaslóðum flóttafólksins eru illa farin eða stórskemmd. Það vantar vatn, rafmagn og matvæli. Flóttafólkið segir frá andláti ástvina sinna, hvernig þeir hafa verið neyddir í herinn, verið numdir á brott og verið féflettir. Foreldrarnir eru örvinglaðir og mörg börn í sálrænu áfalli.“ Kirkjurnar eru í samstarfi við yfirvöld og veita alla þá hjálp sem fyrir hendi er. Þær sjá fólkinu fyrir húsaskjóli og næringu. Samt dugar þetta ekki eitt og sér, til þess að lina þjáningar særðra barnssála.
Starfsfólk Hins úkraínska biblíufélags vill því gjarnan ná til þessara barna með boðskapinn um kærleika Guðs.
Vera segir frá: „Ég gat nú þegar hjálpað mörgum fjölskyldum með einni barnabiblíu. Ég gaf Vladik barnabiblíu á járnbrautar-stöðinni og las með honum í henni. Hann gleðst mjög yfir henni og veit, að Guð verndar hann og heldur í höndina á honum.“ Í samstarfi kirkjunnar og aðstandendur munaðarlausra barna verða á þessu ári gefnar út 20.000 barnabiblíur til viðbótar á rússnesku og 10.000 á úkraínsku.
Vonarorð veita huggun
„Harmur þessara fjölskyldna úr Donbass-héraðinu er mikill. Með barnabiblíunum viljum við stuðla að því, að boðskapur Biblíunnar nái til hjartna foreldranna og barnanna og gefi þeim von,“ segir Oleksandr Babiychuk, framkvæmdastjóru Hins úkraínska biblíufélags. „Kirkjurnar og sjálfboðaliðar hennar eru mjög fús til þess að taka málstað flóttafólksins. Við erum full gleði og undrunar yfir því, að margt af því ratar inn í kirkjuna í fyrsta sinn og setur traust sitt á Guð. Biðjum fyrir fjölskyldum Austur –Úkraínu að þær fái huggun í Orði Guðs.“