,, Veturinn er kaldur og dimmur. Einmitt þess vegna er svo yndislegt að jólin færa okkur tónlist, söng, hefðir og gildi. Það færir okkur nær hvert öðru“ syngur Anne Linnet söngkona í lagi sínu sem samið var fyrir Biblíufélagið í Danmörku í tilefni af 200 ára afmæli félagsins á þessu ári.
Anne Linnet ferðast á milli kirkna, heldur tónleika og syngur jólin inn. Hún nýtur þess að tendra ljós, finna innri frið og hlúa að sínum nánustu. Þessi þekkta söngkona og lagahöfundur hefur áður samið orgeltónverk í samvinnu við Johannes Møllehave og þau hafa gefið út tvær plötur, Söngurinn minn og jólaplötuna Jólin hennar Linnet. Þegar Anne var barn kynntist hún dönskum sálmum í gegnum ömmu sína svo að Biblíuvers eru henni ekki ókunnug. Með útgáfu þeirra laga sem samin hafa verið fyrir danska biblíufélagið á þessu ári rennur ágóðinn til Hiv smitaðra barna í Afríku.
„Mér finnst það verðugt verkefni að styðja og er glöð að taka þátt í því. Jólin eru ekki bara gleði, söngur og tónlist hjá öllum. Jólin eru margt. Það er tími þar sem fólk minnist látinna ættingja og jólatíminn getur verið erfiður tími fyrir margar fjölskyldur“ segir hún.
„Jólin hjá mér eru gleðitími, þau eru haldin með hefðbundnu sniði þar sem fjölskyldan kemur saman. Ég er móðir sjö barna, amma sex barna á öllum aldri og öll börnin, á öllum aldri, eiga sín uppáhaldslög þegar kemur að jólasöngvum“ segir Anne Linnet.