„Biblían er í mínum huga bók sem ég les til að þiggja styrk og von. Biblían er uppspretta sem fyllir líf mitt orku til að lifa því lífi sem mér er ætlað að lifa“ segir Henrik Stubkjær, en hann verður vígður til embættis biskups í Viborg sunnudaginn 23. nóvember. Henrik var fæddur 31. desember 1961 í Brædstrup og lauk guðfræðiprófi frá háskólanum í Árósum 1990. Henrik starfaði um tíma hjá KFUM og K í Danmörku, hann var skólastjóri Djáknaskólans í Árósum og síðan varð hann sóknarprestur og stúdentaprestur í Árósum. Frá árinu 2005 til 2014 var hann framkvæmdastjóri hjálparstarfs dönsku kirkjunnar og nú verður hann vígður til biskups.
Henrik segir að Biblían hafi alltaf skipað stóran þátt í lífi hans. Hann man vel biblíusögur úr æsku og þegar hann var unglingur á vegum hersins í lífvarðasveit konungs, þá hafði hann alltaf Biblíuna sína með sér. „Dag einn við morgunskoðun sá liðþjálfinn að það var bók í svörtu hulstri með rennilás á hillunni minni. Hann spurði mig hvaða bók þetta væri? Ég svaraði eins og var að þetta væri Biblían mín. Þá sagði liðþjálfinn við mig: „Leyfðu mér að sjá og ef að þetta er klámblað eða eitthvað annað sem þú geymir í þessu hulstri þá skal ég kenna þér að ljúga ekki“. Ég opnaði hulstrið og þegar hann sá Biblíuna hrópaði hann yfir allt herbergið: „Þetta líkar mér, maður sem þorir að standa fyrir sínu og vera sá sem hann er“. „Ég veit nú ekki hvort að ég var ákkúrat sá maður, en Biblíuna var gott að hafa með sér“ segir Henrik. Henrik hefur mikið að gera þessa dagana og næstu mánuðir eru mikið bókaðir. En hann gefur sér tíma til að lesa í Biblíunni. Ekki vegna þess að hann verður, heldur vegna þess að hann langar.
„Nú nýt ég þeirra forréttinda sem biskup að ég fæ enn fleiri ástæður til að lesa í Biblíunni“ segir hann.
Henrik er fæddur í umhverfi þar sem kirkjusókn var eðlilegur hluti af daglegu lífi og hann kynntist því vel textum Biblíunnar.
„Ég gladdist með Davíð þegar hann sigraði Golíat, ég skynjaði vonbrigði Nóa þegar hann sendi fyrsta fuglinn frá örkinni og kom tilbaka án nokkurra merkja um þurrt land. En ég hef einnig fundið hvernig gleðin varð tvöfalt meiri þegar dúfan kom aftur í örkina með litla trjágrein í gogginum sínum“ sagði Henrik Stubkjær.
Þessar sögur innihalda von og það er einmitt vonin sem er miðlægt þema í allri hans boðun. Henrik starfaði sem skólastjóri í djáknaskólanum í Árósum og sem framkvæmdastjóri hjálparstarfs kirkjunnar eins og áður sagði og þar starfaði hann við að miðla von og kærleika til annarra með orðin úr Markúsarguðspjalli 10:45 að leiðarljósi:
„Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“.
Henrik sækir líka innblástur í fyrsta Jóhannesarbréf 4:7-11
„Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað“.
„Þessir ritningarstaðir sýna að við megum trúa því að við erum elskuð af fyrra bragði. Að kærleikurinn er það fyrsta sem við mætum, sem gefur kraftinn og lífsfyllinguna. Og þeim kærleika fáum við að miðla til þeirra sem í kringum okkur eru. Þetta er sú lífssýn er setur vonina sem tákn í lífi okkar“ segir Henrik Stubkjær.
Henrik segir að margir hafi haft fordóma gagnvart Biblíunni en honum finnist það vera að hverfa. Hann trúir því að Biblían muni gegna afgerandi hlutverki í framtíðinni.
„Það verður alltaf ákveðin reisn og alvarleiki yfir Biblíunni, því hún er meira en venjuleg bók. Hún er vitnisburður um Guð. Biblían er full af stórkostlegum sögum og lífi. Biblíutextarnir eru grundvöllur menningar okkar og hún er komin til að vera“ segir Henrik.
Biblíufélagið óskar honum Guðs blessunar í nýju embætti.