„Þetta frumkvæði hefur verið gífurleg lyftistöng fyrir Biblíuna og biblíufélagið. Ég heyrði meira að segja á tal nokkurra kvenna um þetta í stórmarkaðnum.“ Vera Mitic, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins í Serbíu, getur ekki hamið spennuna vegna verkefnis sem hefur miðað að útgáfu og dreifingu nærri einar milljónar biblíusmárita á aðeins tveimur mánuðum.

Til að byrja með var þetta bráðabirgðalausn. Ungri og kraftmikilli markaðsstýru Alo, annars stærsta dagblaðs Serbíu, datt í hug að bjóða lesendum smárit um Biblíuna. En hún vissi lítið um Biblíuna og hafði aldrei heyrt um Biblíufélagið. Fyrir tilstilli rétttrúnaðarpatríarkaráðsins hitti hún loks frú Mitic. Út frá því þróaðist metnaðarfullt verkefni.

Alla miðvikudaga í ágúst og september bauð Alo lesendum sínum ókeypis smárit. Þau sem dreift var í ágúst innihéldu hluta úr Gamla testamentinu, en hins vegar var einblínt á Nýja testamentið í september. Ef öllum smáritunum var raðað upp, gafst lesendum kostur á að fá nær alla Biblíuna fyrir andvirði átta dagblaða! Auglýsingar á áberandi stöðum, eins og á strætisvagnabiðstöðvum og pósthúsum sýndu fram á að markið var sett hátt. Þetta kom Biblíufélaginu einnig til góða.

„Við höfum aukið hróður okkar án nokkurs tilkostnaðar,“ segir frú Mitic. „Búmerki okkar hefur verið alls staðar að finna; við höfum aldrei getað náð að auglýsa svo rækilega.“

Byggt á velgengni

Tengslin á milli Alo og Biblíufélagsins hafa einnig komið dagblaðinu til góða, þar sem útbreiðsla þess hefur sýnilega aukist. Nú eru hlutaðeigendur að velta því fyrier sér hvernig þeir eiga að byggja á þessari velgengni. Í bígerð er að bjóða upp á bænabæklinga í nóvember, og á næsta ári munu þeir vinna í sameiningu að ritun Biblíunnar í heild og deila framleiðslukostnaði og sölutekjum.

„Fólk hvaðanæva að, bæði ungt og gamalt, hefur verið æst í að fá smáritin,“ heldur frú Mitic áfram. „Það er ljóst að þetta verkefni bætir virkilega úr brýnni þörf. Stúlka nokkur sem ég ræddi við útskýrði hvernig henni finnst Biblían í heild óaðgengileg, en að smáritin sé mun auðveldara að lesa. Fólk hefur verið hvatt til þess að ljúka lestri á bæklingi yfirstandandi viku áður en sá næsti berst því! Það er virkilega uppörvandi að dagblað þessa heims taki því svo opnum örmum að styðja við Biblíuna og að viðtökurnar hafi verið svo góðar. Við biðjum þess að þessu frumkvæði muni halda áfram að vaxa fiskur um hrygg og hægt verði að ná til sífellt fleira fólks með Orð Guðs.“

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson, þýddi