Sverri Hammer var þann 1. október síðastliðinn valinn formaður stjórnar Biblíufélagsins í Danmörku. Hann er 49 ára og er kvæntur Marie en hún er guðfræðingur. Saman eiga þau fjögur börn. Sverri er stjórnmálafræðingur að mennt frá Háskólanum í Kaupmannahöfn.
Hann telur Biblíufélag vera félag sem fólk mótar saman, þar sem margar hugmyndir og fjölbreytt verkefni fá að njóta sín. Sverri hefur menntað sig í stjórnunarfræðum og hefur kennt og skrifað bækur um stjórnun. Hann var alinn upp á trúræknu heimili í Færeyjum, sótti sunnudagaskóla og síðar Biblíuskóla. Hann hefur sótt styrk og leiðsögn í Biblíuna í gegnum tíðina.
Sverri segir meðal annars að trúin hafi alltaf verið hluti af lífi sínu en hann hafi þó aldrei fengið köllun til að læra guðfræði. Biblían liggur á náttborðinu hans og hann les í henni á hverju kvöldi. Ein af þeim frásögum sem nær sterkt til hans er frásagan af Pétri, sem efaðist og afneitaði Jesú en Jesú vildi samt byggja kirkju sína á. Sverri segir: ,,Það er kirkjan sem við tilheyrum. Mér finnst vera björt framtíð fyrir Biblíufélagið, það er áskorun að tileinka sér nýjar leiðir til að breiða út boðskapinn til fólks. Manga-teiknimyndasögubækurnar, trúarleg tónlist, trúarleg myndlist eru ákveðnar leiðir til að koma boðskap Biblíunnar á framfæri. Þrátt fyrir að samfélagið breytist þá eru manneskjurnar alltaf að hugsa um hvað sé mikilvægast í lífinu og hvernig eigi að lifa lífinu í samfélagi við aðra. Fólk er sífellt að leita að tilgangi, svörum og Biblían hefur þau svör“.
Árið 2014 er afmælisár Biblíufélagsins í Danmörku. Það gleður Sverri hvað margir vilja fagna með félaginu.
Sverri Hammer býr í Haslev ásamt konu sinni og fjórum börnum þeirra. Í gegnum árin hafa þau haft mikla gleði af því að lesa með börnum sínum í Barnabiblíunni og hafa lesið úr henni fyrir þau öll. Fjölskyldan hefur haft þá hefð að fara saman með borðbæn fyrir máltíðir og það gladdi Sverri þegar hann heyrði að 17 ára sonur þeirra fór með borðbæn þegar hann bauð vinum sínum heim í mat. Það var svo eðlilegt fyrir hann að biðja borðbæn eins og alltaf hefur verið gert á þeirra heimili.
Við óskum Sverri velfarnaðar í starfi sínu sem formaður Biblíufélagsins í Danmörku.