Hvers konar verkefni eru efst á baugi hjá Biblíufélaginu í Kína? Hvernig starfar Biblíufélag í landi þar sem mörg tungumál eru töluð og þar sem læsi er lítið? Hvernig á að vekja áhuga ungs fólks á Biblíunni? Hvernig má koma boðskap Biblíunnar á framfæri í löndum þar sem hinn hefðbundni bókalestur fer þverrandi?
Þessar spurningar eru dæmi um málefni sem rædd voru á árlegum fundi hinna Sameinuðu Biblíufélaga sem haldinn var í Hollandi um miðjan júní síðastliðinn. Fundurinn var haldinn í fallegu, gömlu sjávarþorpi í norðvestur Hollandi, Egmond aan Zee. Þar búa um 5000 manns en bærinn er þekktur sumarleyfisstaður.
Á fundinum voru um 200 fulltrúar Biblíufélaga frá 90 löndum samankomnir til að deila reynslu og fá hugmyndir að verkefnum. Það eru mismunandi aðstæður í löndunum. Um leið og hollensku fulltrúarnir fögnuðu 200 ára afmæli Biblíufélagsins í Hollandi var sagt frá harmþrungnu ástandi í Súdan en þar er starfandi yngsta Biblíufélagið, aðeins tveggja ára. Í Súdan er borgarastyrjöld og erfiðleikar miklir. Einnig lýstu fulltrúar Biblíufélagsins í Úkraínu yfir áhyggjum af ástandinu þar í landi. Eitt af verkefnum þess Biblíufélags er að gefa öllum hermönnum landsins Biblíur.
Framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags sótti fundinn fyrir hönd Íslands og greindi frá verkefnum og starfi Biblíufélagsins hér á landi.