„Ef við höldum dampi gætum við séð einhvern hluta Biblíunnar á öllum tungumálum árið 2033” segir Michael Perreau framkvæmdastjóri Sameinuðu biblíufélaganna, UBS, í nýlegu viðtali.
Góðu fréttirnar af biblíuþýðingum eru þessar: Þær ganga hraðar, sem þýðir að árlega fá fleiri hópar fólks en nokkru sinni fyrr Ritninguna á sínu eigin tungumáli.
Framkvæmdastjóri UBS spáir því að ef þýðingarvinnan gengur eins vel og hún hefur gert fram að þessu, munum við sjá einhvern hluta Biblíunnar, kannski guðspjöllin eða Nýja testamentið, á öllum tungumálum heims árið 2033. „Ég er ekki viss um að ég lifi svo lengi, en það er spennandi til þess að hugsa að börn mín og barnabörn muni geta séð það gerast.”
Í heiminum eru töluð um það bil 6.000 tungumál, auk 1.000 minnihlutamála, sem samtals gera 7.000 tungumál á heimsvísu.
Perreau segir Sameinuðu biblíufélögin ljúka um það bil 25 til 30 þýðingum árlega. Auðvitað er fjöldi þeirra sem tala þessi tungumál mismunandi, sum tungumál eru aðeins töluð af nokkrum hundruðum manna, einkum mál frumbyggja Ástralíu. Um þessar mundir taka Sameinuðu biblíufélögin þátt í 451 biblíuþýðingarverkefni.
Sá tími sem varið er í hverja biblíuþýðingu styttist sífellt og samkvæmt orðum Perreaus færumst við ört nær því takmarki að fá Biblíuna á öll tungumál heimsins.
„Árið 2011 lukum við venjulega um það bil fimm þýðingum á ári. Núna ljúkum við árlega um það bil 25 til 30 þýðingum. Um þessar mundir leiðbeina félagar í Sameinuðu biblíufélögunum 1200 þýðendum á heimaslóðum. Þetta þýðir að árlega fá milljónir manna til viðbótar Biblíuna í heild sinni.“
Samkvæmt Perreau eru það fjögur atriði sem gerir hraða aukningu á biblíuþýðingum mögulega:
1. Stafræn tækni flýtir mjög fyrir verkefninu og heimamönnum er treyst fyrir tækjum og tólum. Vinna með heimildatexta í samstarfi við Sameinuðu biblíufélögin hraðar þýðingarvinnunni. Fleiri koma að textagerðinni og aðstoða við að bera saman texta, frumtexta Biblíunnar eða svipaðar þýðingar. Sérstakt forrit, Publisher’s Assistant, auðveldar síðan umbrot og útlitshönnun.
2. Biblíuþýðendur eru ekki lengur aðeins sérfræðingar frá ríkum löndum. Með því að virkja innfædda þýðendur vinnst verkið hraðar og skapar samfélag biblíulesenda. Um þessar mundir leiðbeina félagar í Sameinuðu biblíufélögunum 1200 þýðendum á heimaslóðum. Perreau bendir á að nú á dögum er hafist handa við biblíuþýðingar þegar hópur heimamanna innan safnaðar óskar eftir því, fremur en að trúboðshópur utan úr heimi ákveði að gera það.
3. Kristnir hópar vinna nú betur saman við biblíuþýðingar en áður. Dæmi um slíkt er Stafræna biblíubókasafnið, sem rekið er af Sameinuðu biblíufélögunum. Það hefur að geyma rafræna texta og sér til þess að Biblían verði ekki innlyksa í úreltu tölvu- og margmiðlunarforsniði. Þar er að finna 1.500 texta á 1.400 tungumálum. Þaðan fá aðrar biblíuveitur á borð við YouVersion — biblíuappið — textana sína.
4. „Sérhver þjóðflokkur, sérhver þjóð“ (skammstafað SÞSÞ) nefnist stýrihópurinn að baki þessum breytingum. Hann leiðir saman mikilvæga hluta heildarinnar t.d viðskiptajöfra sem vilja vera með af heilum hug til að fjármagna verk og biblíufélög að sama borðinu. Borin er virðing fyrir hverjum og einum, það er svo einstakt við SÞSÞ. Þeir laða fram fjársjóð Guðs, þá hæfileika og þann tíma sem til þarf. Við lítum svo á að saman leysum við málin er haft eftir Perreau. SÞSÞ byrjaði sem hópur í Bandaríkjunum en hefur undið upp á sig og verður sífellt fjölmenningarlegri.
Perreau lýsir starfi sínu hjá Sameinuðu biblíufélögunum þannig: „Það er bæði blessun og byrði. Blessun vegna þess að þú færð svo mörg tækifæri sem Guð veitir þér. En byrðin felst í því að það eru svo margir sem enn bíða og það þarf að huga að þeim.“