Ha-ættbálkurinn í Tansaníu upplifir andlega umbreytingu er fólk kemst í kynni við Biblíuna í fyrsta sinn.
Ef þú gengur í bókabúð á Kigoma-landsvæðinu í Tansaníu —landsvæði við stöðuvatn á norðvesturhorni landsins — munt þú ekki komast hjá því að heyra spennuþrungna og sífellt algengari spurningu borna upp: „Hvenær verður Kiha-Biblían fáanleg?“
Um áratugar skeið hefur Ha-ættbálkurinn á Kigoma-svæðinu smám saman séð Orð Guðs lifna við í hjörtum sínum á kihamáli. Svo er fyrir að þakka biblíuþýðingarverkefni stutt af fjársterkum aðilum á vegum Hins bandaríska biblíufélags.
Nýja biblíuþýðingin mætir brýnni þörf, þar sem margir innan Ha-ættbálksins tala ekki svahílí, opinbert tungumál Tansaníu. Um þessar mundir hefur kiha-mælandi fólk fengið smjörþefinn af hluta verksins. Þegar þýðingarteymið lauk við að þýða sérhvert rit Biblíunnar, voru biblíuhlutarnir prentaðir og þeim dreift til þúsunda kihamælandi manna á Kigoma-landsvæðinu. En nú hefur allt Nýja testamentið verið þýtt á kihamál og verður gefið út á þessu ári.
Maður nokkur sem hefur kiha að móðurmáli, John Mufumya að nafni, lýsir því hvernig líf hans breyttist á róttækan hátt er hann las Biblíuna í fyrsta skiptið á þjóðtungu sinni:
„Til að byrja með var ég latur að lesa Biblíuna,“ viðurkennir Mufumya. „En þegar ég fékk hluta úr Biblíunni sem skrifaðir höfðu verið á móðurmálinu mínu, þróaðist með mér áhugi á lestri hennar… Ég komst yfir Orðið sem breytti lífi mínu.“
Mufumya segir að sá kafli Biblíunnar sem hefði haft úrslitaþýðingu fyrir sig hafi verið Matteusarguðspjall 11.28-30, þar sem Jesús segir: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“
„Ég komst að því að Jesús kallaði á það fólk sem hefði þungar byrðar svo að það gæti lagt byrðar sínar á hann,“ segir Mufumya. Ég hafði margar þungar byrðar á borð við reykingar, drykkjuskap og slagsmál heima. Síðan ákvað ég að gefa líf mitt Jesú, sem algjörlega breytti lífi mínu.“
Mufumya er ekki heldur sá eini sem fær að upplifa þann kraft Orðs Guðs, sem breytir mannslífi til hins betra. Meðlimir Ha-ættbálksins segja að fjöldi æskufólks sem sækir kirkju hafi aukist gríðarlega, vegna þess að það skilur loksins biblíusögurnar á móðurmáli sínu. Ættbálkurinn hefur einnig tekið eftir fækkun afbrota æskufólks síðan farið var að dreifa Biblíunni á kiha í samfélagi þeirra.
Þegar Nýja testamentið og um síðir öll Biblían verður aðgengileg fyrir hina tæpu milljón kihamælandi manna í Tansaníu, taka kirkjurnar á Kigoma-landsvæðinu fleiri sögum, eins og þeirri er Mufumya hefur fram að færa, fagnandi — sögum líkt og af örþreyttu fólki sem leggur þungar byrðar sínar við fætur Jesú.
HÍB styður við alþjóðlegt starf Sameinuðu Biblíufélaganna.
Stuðningur við alþjóðlegt starf:
kt. 620169-7739
0101-26-3555
Munum að margt smátt gerir eitt stórt.