Eitt stærsta verkefnið sem Hið íslenska biblíufélag stendur frammi fyrir í dag er að fjölga félagsfólki og ná meðal annars í auknum mæli til ungs fólks. Nýir tímar, með breyttri umræðuhefð og tæknivæðingu fela í sér áskorarnir en einnig mörg tækifæri. Eitt af því sem Biblíufélagið ætlar að gera er að koma af stað félagsskap fyrir ungt fólk, þvert á kirkjudeildir, með það að markmiði að kynna Biblíuna og boðskap hennar meðal ungmenna. Ég hef sjálfur kynnt Biblíufélagið og starfsemi þess í unglingastarfi hjá nokkrum kristnum trúfélögum og fengið góð viðbrögð. Nokkrir fulltrúar undirbúningshóps fyrir kynningarherferð Híb hittust miðvikudagskvöldið 21 .maí og þar var ákveðið að hefja undirbúning í haust fyrir kynningarherferð Híb á afmælisárinu með því að kalla á ungt fólk úr öllum kirkjudeildum saman á fund.
Á Íslandi starfa mörg kristin trúfélög sem hafa öll mismunandi áherslur eins og við þekkjum. Það er mjög mikilvægt að starfandi sé öflugt Biblíufélag sem tekst að sameina allt kristið fólk ásamt því að kynna Biblíuna fyrir þeim sem þekkja hana lítið eða ekkert. Boðskapur Biblíunnar á vel við í dag líkt og áður. Það er markmið Biblíufélagsins að stuðla að útbreiðslu og notkun Biblíunnar og með því að koma þessu starfi af stað meðal ungs fólks er Biblíufélagið að taka stórt skref í átt að því að ná fram sínum markmiðum. Það er verk að vinna og mikilvægt að við tökum höndum saman og leggjumst öll á eitt.
Pétur Ragnhildarson, nemi