Á árinu 2015 var lokið við þýðingu á Biblíunnar á 50 ný tungumál. Ellefu þjóðabrot fengu í fyrsta sinn Biblíuna í heild sinni þýdda á sitt móðurmál. Þrátt fyrir þetta er enn um hálfur milljarður manna sem hefur ekki aðgang að Biblíunni á sínu móðurmáli.
Þetta eru upplýsingar frá Sameinuðu biblíufélögunum (United Bible Societies) sem þessa dagana kynna nýjustu tölur af biblíuþýðingum í heiminum.
Næstum 5,1 milljarður manna hafa í dag aðgang að Biblíunni á sínu eigin tungumáli, aðrir hafa fengið einstaka hluta Biblíunnar þýdda á sitt móðurmál.
100 þýðingar á þremur árum.
Af 3952 tungumálum heimsins, sem töluð eru af 497 milljónum manna, er ekki til þýðing af Biblíunni. Þess vegna var verkefnið „100 þýðingar á 1000 dögum“ sett á laggirnar af biblíufélögum heims og nálgast þau nú markmið sitt.
– Það tekur yfirleitt tólf til þrettán ár að þýða alla Biblíuna á nýtt tungumál, ef allt gengur vel, en við þurfum að auka hraðann. Það er afar mikilvægt að eiga þess kost að lesa Guðs orð á sínu tungumáli og fyrir kirkjuna sem slíka er það nauðsynlegt að Biblían sé fáanleg á öllum tungumálum, segir Anders Blåberg, framkvæmdastjóri sænska biblíufélagsins.
– Það er ekki nóg að lesa á ensku. Að lesa Biblíuna á sínu móðurmáli eykur skilninginn og gefur nýja sýn og önnur blæbrigði. Hugsið ykkur, ef Svíar hefðu nú bara Biblíuna á norsku!
Verkefni sem hófst árið 1998.
Sidama-tungumálið í Eþíópíu er tungumál sem tæplega þrjár milljónir manna tala og er eitt þeirra tungumála sem Biblían í heild sinni hefur verið þýdd á. Verkefnið hófst árið 1998 meðal annars í samstarfi við Mekane Yesus kirkjuna og kaþólsku kirkjuna í landinu. Fram hefur komið að pólitískir leiðtogar á svæðinu hafa tjáð sig um að þeim finndist þetta vera jákvæð þróun fyrir svæðið.
Ekki hægt að kaupa í bókabúðum.
Tiltekið þjóðarbrot í Víetnam, Rade, sem samanstendur af nálægt 177.000 manns, er dæmi um erfiðleika fólks að eignast Biblíu. Meðal þeirra hófst þýðingarstarf Biblíunnar árið 2004. Helmingur þjóðflokksins er kristinn.
– Nú hafa kristnir Víetnamar tekið við sér, en við minnumst trúarlegra ofsókna og hvernig Biblían var gerð upptæk þar. Ennþá er útbreiðsla Biblíunnar vandamál. Biblíunni er dreift til kirkna en það er ekki hægt að kaupa hana í bókabúðum. Það þarf einnig sérstakt leyfi til að prenta Biblíuna, segir Lotta Ring, talsmaður alþjóðastarfs sænska biblíufélagsins.
Hugsa fram í tímann.
Anders Blåberg fjallar um fleiri áskoranir þegar kemur að áframhaldandi þýðingarstarfi.
-Í fyrsta lagi er það áskorun að innleiða þýðingar einmitt á þeim svæðum þar sem það er pólitískt- og trúarlega viðkvæmt, og þar sem kristnir menn eru ofsóttir. Þess vegna er mikilvægt að vera fær um að hugsa til langs tíma og úthluta fjármagni til verkferla sem taka 10-15 ár. Eitt af þeim þýðingarverkefnum sem lokið var við á síðasta ári í Svíþjóð, var sýnishorn af þýðingu Galatabréfsins og hluta Lúkasarguðspjalls í Nýja testamentinu. Og nú er beðið eftir athugasemdum og ábendingum frá kirkjunum. Hvort út komi alveg ný þýðing eða endurgerð einhvers hluta Biblíunnar frá árinu 2000 verður að koma í ljós.
-Sumir segja að það séu ákveðin mannréttindi að fá að lesa Biblíuna. Aðrir tala um ástarbréf sem við fáum að lesa. Við höfum fengið boð frá Jesú um að deila boðskap hans, orði Guðs, segir Lotta Ring.
Biblían er fáanleg á þetta mörgum tungumálum:
Biblían í heild sinni: 563 tungumál.
Nýja testamentið: 1334 tungumál.
Einstök rit Biblíunnar: 1038 tungumál.
Engir þýðingar á textum Biblíunnar: 3952 tungumál.
Fjöldi þeirra sem hafa aðgang að Biblíunni á sínu móðurmáli:
Biblían í heild sinni: 5,1 milljarður manna.
Nýja testamentið: 658 milljónir manna.
Einstök rit Biblíunnar: 281 milljónir manna.
Engin rit Biblíunnar: 497 milljónir manna.
Í dag eru töluð um 6887 tungumál í heiminum.
Sjá nánar frétt á http://www.dagen.se/bibeln-p%C3%A5-ett-nytt-spr%C3%A5k-varje-vecka-1.708901