Sem samverkamaður Krists hvet ég ykkur einnig að þið látið ekki náð Guðs, sem þið hafið þegið, verða til einskis. Hann segir:
Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig,
og á hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér.
Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur. Í engu vil ég gefa neinum tilefni til ásteytingar, ég vil ekki að þjónusta mín sæti lasti. Í öllu læt ég sjást að ég er þjónn Guðs: Með miklu þolgæði í þrengingum, nauðum og andstreymi, þegar ég hef mátt þola barsmíðar, verið í fangelsi, orðið fyrir aðsúg, í erfiði mínu, andvökum og sulti, með grandvarleik, þekkingu, þolinmæði og mildi, með heilögum anda, með falslausum kærleika, með orði sannleikans, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar, í heiðri og vanheiðri, lasti og lofi. Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.
Ég tala frjálslega við ykkur, Korintumenn. Rúmt er um ykkur í hjarta mínu. Ekki er þröngt um ykkur hjá mér en í hjörtum ykkar er þröngt. En svo að sama komi á móti – ég tala eins og við börn mín – þá látið þið líka verða rúmgott hjá ykkur.