Drottningin af Saba heyrði það orð sem fór af Salómon og kom til þess að reyna hann með gátum. Hún kom til Jerúsalem ásamt miklu fylgdarliði og hafði úlfalda klyfjaða balsami, gulli og dýrindis steinum. Hún gekk fyrir Salómon og lagði fyrir hann allt sem henni lá á hjarta. Salómon svaraði öllum spurningum hennar, ekkert var konungi hulið og aldrei varð honum svara fátt. Þegar drottningin af Saba hafði kynnst speki Salómons, séð húsið, sem hann hafði byggt, matinn á borði hans, sætaskipan hirðmanna, þjónustu skutilsveina hans og klæðnað, byrlara hans og brennifórnir, sem hann færði í húsi Drottins, varð hún agndofa. Hún sagði við konung: „Það sem ég heyrði heima í landi mínu um orðsnilld þína og visku hefur reynst rétt. En ekki trúði ég því sem sagt var fyrr en ég kom og kynntist því af eigin raun. Þó var mér ekki skýrt frá helmingnum. Viska þín og velmegun er meiri en ég hafði heyrt um. Sælir eru menn þínir, sælir hirðmenn þínir, sem sífellt eru hjá þér og hlýða á speki þína. Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði velþóknun á þér svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Drottinn gerði þig að konungi til þess að ástunda rétt og réttlæti af því að hann elskar Ísrael ævinlega.“ Hún gaf konungi hundrað og tuttugu talentur gulls, gnægð balsams og dýrindis steina. Aldrei framar barst hingað eins mikið balsam og drottningin af Saba gaf Salómon konungi.
Skip Hírams, sem komu með gull frá Ófír, fluttu þaðan einnig mjög mikið af almúggímviði og dýrindis steinum. Konungurinn lét gera handrið í hús Drottins og konungshöllina úr almúggímviðnum, einnig sítara og hörpur handa söngvurunum. Allt til þessa dags hafa slík býsn af almúggímviði hvorki borist hingað né sést hér.
Salómon konungur veitti drottningunni af Saba allt sem hún girntist og bað um, auk þess sem hann gaf henni hefðbundna konungsgjöf. Síðan sneri hún aftur og hélt til lands síns ásamt fylgdarmönnum sínum.