2. kafli
Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.
Tala þú þetta og uppörva og vanda um með allri röggsemi. Lát engan lítilsvirða þig.
3. kafli
Minn þau á að lúta höfðingjum og yfirvöldum, vera hlýðin og reiðubúin til sérhvers góðs verks, lastmæla engum, vera friðsöm, sanngjörn og sýna öllum mönnum vinsemd. Því að þeir voru tímarnir að við vorum einnig óskynsöm, óhlýðin, villuráfandi, í ánauð hvers konar fýsna og lostasemda. Við ólum aldur okkar í illsku og öfund, vorum andstyggileg, hötuðum hvert annað. En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.