Í gær, miðvikudaginn 21. september, var fundur framkvæmdastjóra Biblíufélaga á Norðurlöndum og við Eystrasalt. Um er að ræða árlegan fund, sem síðastliðin þrjú ár hefur verið haldinn á Zoom. Að þessu sinni hittust framkvæmdastjórarnir í Osló og báru saman bækur sínar.
Meðal þess sem var sagt frá var spennandi þýðingarverkefni á Biblíunni á færeysku. Þá var rætt um aðferðir og áherslur í Biblíuþýðingum, m.a. í ljósi nýlegrar danskrar þýðingar á hversdagsmáli, nýrrar þýðingar á finnsku þar sem horft var til þess að auðvelt væri að lesa þýðinguna á símaskjám og þýðingar á sænskt nútímamál sem er væntanleg.
Það er e.t.v. skrítið að tala um framþróun og nýjungar þegar rætt er um Biblíuna, en það er vissulega margt nýtt og spennandi í gangi á vettvangi Biblíufélaga um allan heim, jafnt þegar horft er til nýrra aðferða við stafræna útgáfu og til þýðingaraðferða.
Á fundinum var rætt töluvert um áhrif innrásar Rússa í Úkraínu, bæði á starf Biblíufélagsins í Úkraínu og eins um áhrif stríðsins á líf og starf í Eystrasaltslöndunum.
Þá var umræða um breytingar hjá Hinu íslenska biblíufélagi, eftir að útgáfusamningi á Biblíunni við JPV/Forlagið var sagt upp. En Hið íslenska biblíufélag er að hefja útgáfu og prentun Biblíunnar á íslensku í eigin nafni á næstu mánuðum. Var það samróma álit framkvæmdastjóranna að þetta væri mikið framfaraskref fyrir Biblíufélagið á Íslandi.
Loks er vert að nefna að á fundinum var kynning á nýju Biblíuappi og vefkerfi sem er hannað af hollenska-, þýska- og brasíliska biblíufélaginu til að mæta þörfum Biblíufélaga fyrir öflugt og vandað vefumsjónarkerfi og app.
Halldór Elías Guðmundsson sótti fundinn fyrir hönd Hins íslenska biblíufélags, og notaði jafnframt ferðina til að funda með starfsfólki norska Biblíufélagsins. En norska Biblíufélagið hefur stutt starf Hins íslenska biblíufélags á ýmsa vegu á liðnum árum.
Ljósmynd: Nýja testamentið á finnsku var þýtt sérstaklega með stafræna miðla í huga. Þar var horft til þess að setningaskipan í stafrænum texta er annars konar en í hefðbundnum texta. Orðanotkun og hugtök eru notuð á annan hátt og notkun persónufornafna annars konar. Um leið og horft var til ofangreindra þátta var þess gætt að merking og blæbrigði textans héldu sér í hvívetna.