Alvæpni Guðs
10 Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. 11 Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. 12 Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. 13 Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju 15 og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. 16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. 17 Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð. 18 Gerið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum. 19 Biðjið fyrir mér að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins. 20 Boðberi þess er ég í fjötrum mínum. Biðjið að ég geti flutt það með djörfung eins og mér ber að tala.