Bönnuð samskipti við heiðnar þjóðir
1 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur leitt þig inn í landið sem þú heldur nú inn í til að taka það til eignar, mun hann ryðja mörgum þjóðum úr vegi fyrir þér, Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanverjum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, þeim sjö þjóðum sem eru fjölmennari og voldugri en þú. 2 Þegar Drottinn, Guð þinn, hefur gefið þér þær á vald og þú hefur sigrað þær skaltu helga þær banni. Þú mátt ekki gera við þær sáttmála, ekki hlífa þeim 3 og ekki mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa dætur þínar sonum þeirra né taka dætur þeirra til handa sonum þínum.
4 Það mundi snúa sonum þínum frá fylgd við mig svo að þeir færu að þjóna öðrum guðum. Þá mundi reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og eyða þér þegar í stað. 5 En þannig skuluð þið fara með þær: Þið skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta merkisteina þeirra, höggva niður Asérustólpa og brenna skurðgoð þeirra í eldi. 6 Því að þú ert heilög þjóð fyrir Drottni Guði þínum. Drottinn valdi þig til að verða eignarlýður hans meðal allra þjóða sem búa á yfirborði jarðar.
7 Ekki var það vegna þess að þið væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir að Drottinn fékk ást á ykkur og valdi ykkur því að þið eruð fámennari en allar aðrar þjóðir. 8 En sökum þess að Drottinn elskaði ykkur og hélt eiðinn sem hann sór feðrum ykkar leiddi hann ykkur út úr þrælahúsinu með sterkri hendi og keypti ykkur frjálsa úr hendi faraós Egyptalandskonungs. 9 Vita skaltu: Drottinn, Guð þinn, hann einn er Guð, hinn trúfasti Guð sem heldur sáttmálann og veitir þeim heill í þúsund ættliði sem elska hann og halda boðorð hans. 10 En hann endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann og afmáir hann. Hann hikar ekki heldur endurgeldur þeim umsvifalaust sem hatar hann. 11 Þess vegna skaltu halda fyrirmælin, lögin og ákvæðin, sem ég set þér nú í dag, og framfylgja þeim.