Til Makedóníu og Grikklands
1 Þegar þessum látum linnti sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu. 2 Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands. 3 Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu. 4 Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus. 5 Þeir fóru á undan og biðu okkar í Tróas. 6 En við sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar dvöldumst við í sjö daga.
Páll talar í Tróas
7 Fyrsta dag vikunnar, er við vorum saman komin til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis. 8 Mörg ljós voru í loftstofunni þar sem við vorum saman komin. 9 Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi er Páll ræddi svo lengi og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti og var tekinn upp andvana. 10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: „Verið stillt, það er líf með honum.“ 11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott. 12 En menn fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.
Frá Tróas til Míletus
13 Við fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum við að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt því hann vildi fara landveg. 14 Þegar hann hafði hitt okkur í Assus tókum við hann á skip og héldum til Mitýlene. 15 Þaðan sigldum við daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum við til Samos og komum næsta dag til Míletus. 16 Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni ef verða mætti að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.
Páll kveður í Efesus
17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.