2. kafli

37 Er menn heyrðu þetta var sem stungið væri í hjörtu þeirra og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: „Hvað eigum við að gera, bræður?“
38 Pétur sagði við þá: „Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda. 39 Því að ykkur er ætlað fyrirheitið, börnum ykkar og öllum þeim sem í fjarlægð eru, öllum þeim sem Drottinn Guð vor kallar til sín.“ 40 Og með öðrum fleiri orðum brýndi hann þá og hvatti og sagði: „Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.“ 41 En þau sem veittu orði hans viðtöku tóku skírn og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir. 42 Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.

Samfélag trúaðra

43 Ótta setti að hverjum manni en mörg undur og tákn gerðust fyrir hendur postulanna. 44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. 45 Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. 46 Daglega komu menn saman með einum huga í helgidóminum, brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. 47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu.

3. kafli

Við Fögrudyr

1 Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. 2 Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn. 3 Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu. 4 Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: „Lít þú á okkur.“ 5 Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. 6 Pétur sagði: „Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ 7 Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, 8 hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. 9 Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. 10 Menn könnuðust við að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því sem fram við hann hafði komið. 11 Maðurinn hélt sér að Pétri og Jóhannesi og þá flykktist allt fólkið furðu lostið til þeirra í súlnagöngin sem kennd eru við Salómon.