15 Á þessum dögum stóð Pétur upp meðal lærisveinanna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti: 16 „Systkin,[ rætast hlaut það sem heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs í Heilagri ritningu um Júdas sem vísaði leið þeim er tóku Jesú höndum. 17 Hann var í okkar hópi og honum var falin sama þjónusta. 18 Hann keypti landspildu fyrir launin sem hann fékk fyrir ódæði sitt, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju svo að iðrin öll lágu úti. 19 Þetta varð kunnugt öllum Jerúsalembúum og er spilda sú kölluð Akeldamak á tungu þeirra, það er Blóðreitur. 20 Ritað er í Sálmunum:
Bústaður hans skal í eyði verða,
enginn skal í honum búa,

og:
Annar taki embætti hans.
21 Einhver þeirra manna sem með okkur voru alla tíð meðan Drottinn Jesús gekk inn og út á meðal okkar, 22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags er hann varð upp numinn frá okkur, verður nú að gerast vottur upprisu hans ásamt okkur.“
23 Menn völdu tvo, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Matthías, 24 báðust fyrir og sögðu: „Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú hvorn þessara þú hefur valið 25 til að taka við þessari þjónustu og postuladómi sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar.“ 26 Þeir hlutuðu um þá og kom upp hlutur Matthíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.