3. kafli
17 Systkin,[ breytið öll eftir mér og festið sjónir ykkar á þeim sem breyta eftir þeirri fyrirmynd er við höfum gefið ykkur. 18 Margir breyta – ég hef oft sagt ykkur það og nú segi ég það jafnvel grátandi – eins og óvinir kross Krists. 19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. 20 En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. 21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.
4. kafli
Drottinn í nánd
1 Þess vegna, mín elskuðu og þráðu systkin,[ gleði mín og kóróna, standið þá stöðug í Drottni.
2 Ég áminni Evodíu og Sýntýke að vera samlyndar vegna Drottins. 3 Já, ég bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum og standa nöfn þeirra í lífsins bók.
4 Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. 5 Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6 Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. 7 Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
8 Að endingu, systkin,[ allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. 9 Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.