Jesú freistað
1 Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. 2 Þar fastaði Jesús fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður. 3 Þá kom djöfullinn og sagði við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum.“
4 Jesús svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“
5 Þá tekur djöfullinn Jesú með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins 6 og segir við hann: „Ef þú ert sonur Guðs þá kasta þér ofan því að ritað er:
Hann mun fela þig englum sínum
og þeir munu bera þig á höndum sér
að þú steytir ekki fót þinn við steini.“
7 Jesús svaraði honum: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“
8 Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra 9 og segir: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“
10 En Jesús sagði við hann: „Vík brott, Satan! Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“
11 Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.