Jólabókaflóðið er nú í hámarki. Allir keppast við að auglýsa og stjörnugjöf er mælikvarðinn. Svo misvísandi sem hann kann nú að vera, uppfinning manna og beitt misjafnlega af ritdómurum sem þar á ofan eru mishæfir til að fjalla um bækur. Allur þessi atgangur kann að rugla fólk í ríminu, það stendur ráðþrota í bókabúðum og reynir að rifja upp í huganum hvað þessi sagði um hina bókina og hvað hinn sagði um þessa.

Ein er sú bók sem þarf enga stjörnugjöf, hún mælir með sér sjálf og hefur verið veganesti milljóna um víða veröld í mörg hundruð ár. Þessi bók er fáanleg í ýmsum útgáfum, t.d. myndskreytt og einfölduð fyrir börn en klassíska útgáfan er að mestu laus við myndir – nema þær sem dásamlegur textinn dregur fram. Þessi bók fæst í öllum bókabúðum.

Biblían er jólabókin í ár, hún er líka páskabókin og reyndar bók allra daga. Hún er bók bókanna og hefur verið svo nokkuð lengi. Hún hefur fylgt okkur kristnum mönnum og vísað okkur veginn, líkt og Betlehemstjarnan vísaði vitringunum leið að fæðingarstað frelsarans. Vitringunum gekk vel að rata eftir stjörngjöf Guðs – þeir tóku eina og eina stjörnu í einu, fúlsuðu við fimm stjörnum, og fetuðu sig með þeim hætti að sannleikanum. Að Jesú Kristi.

Biblían segir frá sögu og bókmenntum Hebrea, hún segir okkur frá spádómum um komu Messíasar, hún greinir okkur frá fæðingu frelsarans, jarðvistardögum Krists og þeim undrum og stórmerkjum sem sú ganga hans skilaði. Hún gefur okkur orð Guðs og ráðagerð. Biblían segir okkur líka frá því hvað gerðist eftir að friðarhöðinginn mikli hvarf héðan, segir okkur frá starfi fyrstu lærisveinanna, trúboðana. Biblían segir okkur frá því sem grundvallar mannskilning hins vestræna heims, réttarfar hans og samfélagsgerð alla.

Biblían er því – líkt og svo oft áður – jólagjöf sem gleður og endist. Gengur jafnvel mann fram af manni í fjölskyldum, gefur innsýn í líf ömmu og afa sem ef til vill merktu við ritningarstaði á ögurstundum í lífi sínu og fjölskyldunnar. Slíkar ættarbiblíur eru gersemi sem svo auðvelt er að lesa, elska og varðveita. Og þarf enga stjörnugjöf til. Bara gjöfina einu.

Biblían er jólagjöf til framtíðar.

 

Guðmundur S. Brynjólfsson,
starfsmaður HÍB