20. kafli

Dauði Arons

22 Ísraelsmenn lögðu af stað frá Kades og allur söfnuðurinn kom að fjallinu Hór. 23 Þá talaði Drottinn til Móse og Arons á Hórfjalli við landamæri Edóms og sagði: 24 „Aron skal nú safnast til forfeðra sinna því að hann skal ekki koma inn í landið sem ég hef gefið Ísraelsmönnum því að þið risuð gegn skipun minni við Meríbavatn. 25 Sæktu Aron og son hans, Eleasar, og farðu með þá upp á Hórfjall. 26 Færðu Aron þar úr klæðum sínum og klæddu Eleasar, son hans, í þau. Aron skal safnast til forfeðra sinna og deyja þar.“
27 Móse gerði það sem Drottinn hafði boðið honum. Þeir fóru upp á Hórfjall í augsýn alls safnaðarins. 28 Síðan færði Móse Aron úr klæðum sínum og klæddi Eleasar, son hans, í þau. Aron dó þarna á fjallstindinum en Móse og Eleasar gengu niður af fjallinu. 29 Þegar öllum söfnuðinum varð ljóst að Aron var dáinn grét allur Ísraelslýður hann í þrjátíu daga.

21. kafli

Horma sigruð

1 Þegar kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Negeb, frétti að Ísrael væri á leiðinni eftir Atarimveginum réðst hann á Ísraelsmenn og tók nokkra þeirra til fanga. 2 Þá vann Ísrael Drottni heit og sagði: „Ef þú selur þetta fólk í hendur mér mun ég helga borgir þeirra banni.“ 3 Drottinn bænheyrði Ísrael og framseldi Kanverjana í hendur þeim. Ísrael helgaði þá sjálfa og borgir þeirra banni og gaf staðnum nafnið Horma.

Eirormurinn

4 Ísraelsmenn héldu frá Hórfjalli í átt til Sefhafsins til þess að sneiða hjá Edómslandi. En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni 5 og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“
6 Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. 7 Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu 8 og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“
9 Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.