12Öll virki þín eru sem fíkjutré
sem bera vorfíkjur.
Séu þau hrist falla þær
í munn hvers sem vill.
13Hermenn þínir eru sem konur,
hlið lands þíns hafa lokið sér upp sjálf
fyrir óvinum þínum,
slagbrandarnir hafa orðið eldi að bráð.
14Austu þér vatnsforða fyrir umsátina,
styrktu varnarvirki þín.
Gakktu í leireðjuna, troddu leirinn
og hafðu leirmótin tiltæk.
15Þar mun eldurinn eyða þér,
sverðið tortíma þér,
eyða þér eins og engisprettufaraldur,
jafnvel þótt lið þitt verði sem engisprettusægur,
iðandi grasvargur.
16Kaupmenn þínir voru fleiri en stjörnur himinsins,
en sem grasvargur skiptu þeir hömum og hurfu á braut.
17Verðir þínir voru sem engisprettur
og herforingjar þínir eins og skordýrasægur
sem sest á steingarða á svölum degi
en flýgur burt þegar sólin birtist
og enginn veit hvað af honum verður.
18Hirðar þínir blunda, Assýríukonungur,
leiðtogar þínir sofa.
Menn þínir hafa tvístrast um hæðirnar
og enginn er til að safna þeim saman.
19Engin bót verður ráðin á meinsemd þinni,
sár þitt er ólæknandi.
Allir sem fá tíðindin um þig
munu klappa saman lófum
því að hver hefur ekki mátt þola
linnulausa illsku þína?