2. kafli
12Hvar er nú bæli ljónanna,
hvar hellir ljónshvolpanna
þar sem ljónið gekk óáreitt,
ljónynjan og hvolparnir?
13Þar sem ljónið tætti sundur bráðina
svo að hvolparnir fengju fylli sína,
og drap handa ljónynjum sínum,
fyllti hella sína bráð
og bæli sín ránsfeng.
14Þín vitja ég, segir Drottinn allsherjar,
læt vagna þína eyðast í eldi
og ungviði þitt verða sverði að bráð.
Ránsfeng þínum eyði ég af jörðinni.
Raust sendiboða þinna mun ekki framar heyrast.
3. kafli
1Vei hinni blóðseku borg
sem full er af svikum og ránsfeng
og lætur ekki af ofbeldi.
2Svipusmellir. Hjólaskrölt.
Hófatak. Vagnagnýr.
3Riddarar geysast fram,
sverð blika, spjót leiftra.
Fjöldi valfallinna, kestir af hræjum.
Óteljandi eru líkin,
um þau hrasa menn.
4Vegna hins mikla lauslætis skækjunnar,
hinnar fögru og fjölkunnugu,
sem vélaði þjóðir með lauslæti sínu
og kynstofna með töfrum sínum,
5vitja ég þín, segir Drottinn allsherjar,
og ég mun bregða klæðafaldi þínum upp að framan
og sýna þjóðunum nekt þína
og konungsríkjunum blygðun þína.
6Ég mun varpa yfir þig saur
og svívirða þig
svo að þú verðir öðrum víti til varnaðar.
7Þá hrökkva þeir undan
sem líta þig og segja:
„Níníve er lögð í eyði.
Hver aumkar hana nú?“
Hvar ætti ég að leita þér huggara?