7En ég mæni í von til Drottins,
bíð eftir Guði hjálpræðis míns.
Guð minn mun heyra til mín.
Von Síonar
8Hlakkaðu ekki yfir mér,
fjandkona mín.
Þótt ég falli rís ég á ný,
þótt ég sitji í myrkri er Drottinn ljós mitt.
9Ég hef syndgað gegn Drottni
og hlýt því að þola reiði hans
uns hann hefur talað máli mínu
og látið mig ná rétti mínum.
Hann leiðir mig út í ljósið
og ég mun sjá réttlæti hans.
10Það mun fjandkona mín sjá
og blygðun hennar verður algjör,
hennar sem segir við mig:
„Hvar er Drottinn, Guð þinn?“
Og ég mun horfa á
þegar hún verður fótum troðin
eins og aur á strætum.
11Sá dagur kemur að múrar þínir verða endurreistir
og þann dag mun land þitt stækka að mun.
12Þann dag munu menn snúa aftur til þín,
koma allt frá Assýríu til Egyptalands,
frá Egyptalandi allt til Efrat,
frá hafi til hafs og fjöllum til fjalla.
13En land þitt mun leggjast í auðn
vegna íbúa þess,
sá verður ávöxtur misgjörða þeirra.
14Gættu þjóðar þinnar
með hirðisstafnum,
þinnar eigin hjarðar
sem býr ein sér í kjarrskógi
umkringd gróðurlendum.
Haltu henni til beitar í Basan og Gíleað
eins og forðum.
15Sýndu oss aftur undur [
eins og þegar þú fórst frá Egyptalandi.
16Þjóðirnar skulu sjá það og blygðast sín
þrátt fyrir allan mátt sinn.
Þær munu leggja hönd á munn sér
og loka hlustum sínum.
17Þær munu sleikja rykið
eins og höggormurinn,
eins og kvikindin sem skríða á jörðinni.
Þær munu koma skjálfandi úr fylgsnum sínum
til Drottins, Guðs vors.
Þær munu óttast þig og virða.
18Hver er slíkur Guð sem þú,
sem fyrirgefur misgjörðir
og sýknar af syndum
þá sem eftir eru af arfleifð þinni?
Reiði Guðs varir ekki að eilífu
því að hann hefur unun af að sýna mildi.
19Og enn sýnir hann oss miskunnsemi,
hann fótumtreður sök vora.
Já, þú varpar öllum syndum vorum
í djúp hafsins.
20Þú munt halda tryggð þinni við Jakob
og sýna Abraham miskunnsemi
eins og þú sórst feðrum vorum forðum.