Nýjar lögmálstöflur

1 Drottinn sagði við Móse: „Högg þér tvær steintöflur eins og hinar fyrri. Ég mun rita á þessar töflur orðin sem stóðu á fyrri töflunum sem þú molaðir sundur. 2 Vertu tilbúinn á morgun. Þá skaltu ganga árla upp á Sínaífjall og staðnæmast hjá mér þar á fjallstindinum. 3 Enginn annar maður má koma upp með þér og enginn maður má sjást nokkurs staðar á fjallinu. Sauðfé og naut mega hvergi vera á beit í fjallshlíðinni.“
4 Móse hjó tvær steintöflur eins og hinar fyrri. Hann var snemma á fótum morguninn eftir og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og hélt á báðum steintöflunum. 5 Drottinn steig niður í skýi og nam staðar þar hjá Móse. Hann hrópaði nafn Drottins. 6 Drottinn gekk fram hjá honum og hrópaði: „Drottinn, Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. 7 Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir en lætur hinum seka ekki óhegnt heldur lætur afbrot feðranna bitna á börnum og barnabörnum í þriðja og fjórða lið.“
8 Móse lét sig þegar í stað falla til jarðar 9 og sagði: „Hafi ég fundið náð fyrir augum þínum, Drottinn, komdu þá með okkur, Drottinn. Þótt þetta sé harðsvíruð þjóð, fyrirgefðu okkur sekt okkar og syndir og gerðu okkur að eign þinni.“

Sáttmálinn

10 Drottinn sagði: „Nú geri ég sáttmála. Ég ætla að gera þau kraftaverk frammi fyrir þjóð þinni sem aldrei áður hafa verið gerð í neinu landi eða hjá neinni annarri þjóð. Allt fólkið, sem með þér er, skal sjá verk Drottins. Það sem ég ætla nú að gera fyrir þig er ógnvekjandi. 11 Haltu það sem ég býð þér í dag. Ég mun hrekja á undan þér Amoríta, Kanverja, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.
12 Gættu þess að gera ekki sáttmála við íbúa þess lands sem þú kemur til svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru mitt á meðal ykkar. 13 Þú skalt rífa niður ölturu þeirra, brjóta merkisteina þeirra og höggva niður Asérustólpa þeirra.
14 Þú skalt ekki falla fram fyrir neinum öðrum guði því að nafn Drottins er „Hinn vandláti“, hann er vandlátur Guð. 15 Þú skalt ekki gera sáttmála við íbúa landsins. Þegar þeir hórast með guðum sínum og færa guðum sínum sláturfórnir munu þeir bjóða þér og þá muntu neyta fórna þeirra. 16 Takirðu dætur þeirra sem eiginkonur handa sonum þínum munu dætur þeirra halda fram hjá með guðum sínum og fá syni þína til að hórast með guðum sínum.