Við Betesdalaug
1 Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. 2 Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. 3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. 4 En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.][ 5 Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. 6 Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
7 Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
8 Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ 9 Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur 10 og menn[ sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
11 Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
12 Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
13 En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
15 Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga[ að Jesús væri sá sem læknaði hann.