Fyrir trú
1 Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. 2 Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs.
3 Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.
4 Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain af því að hann treysti Guði, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð að hann væri réttlátur er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn þótt dáinn sé.
5 Fyrir trú var Enok burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja eins og ritað er: 6 „Ekki var hann framar að finna af því að Guð hafði numið hann burt.“ Áður en hann var burt numinn hafði hann fengið þann vitnisburð „að hann hefði verið Guði þóknanlegur“. Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.
7 Fyrir trú fékk Nói bendingu um það sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann hlýddi Guði og smíðaði örk til þess að bjarga heimilisfólki sínu. Með trú sinni sýndi hann að heimurinn hafði á röngu að standa og varð erfingi réttlætisins af trúnni.
8 Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá. 9 Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum ásamt Ísak og Jakobi sem Guð hafði heitið því sama og honum. 10 Því að hann vænti þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og reisti.
11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim sem fyrirheitið hafði gefið.[ 12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðjamergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd er ekki verður tölu á komið.
13 Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni. 14 Þeir sem slíkt mæla sýna með því að þeir eru að leita eigin ættjarðar. 15 Hefðu þeir haft í huga ættjörðina sem þeir fóru frá, hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur. 16 En nú þráðu þeir betri ættjörð og himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir að kallast Guð þeirra því að borg bjó hann þeim.