1 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2Guð rís upp, óvinir hans tvístrast,
þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3Þeir munu feykjast burt
líkt og reykur feykist burt,
eins og vax bráðnar í eldi
þannig tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs
og fyllast gleði.
5Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans,
hyllið hann sem þeysir yfir auðnina,
Drottinn er nafn hans, fagnið fyrir augliti hans.
6Guð í sínum heilaga bústað
er faðir munaðarlausra og verndari ekkna.
7Guð býr hinum einmana heimili,
leiðir hina fjötruðu til farsældar
en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8Þegar þú fórst út á undan lýð þínum, Guð,
skundaðir yfir öræfin, (Sela)
9þá nötraði jörðin, regn draup af himni
frammi fyrir Guði, Drottni Sínaí,
frammi fyrir Guði, Ísraels Guði.
10Þú lést rigna ríkulega á arfleifð þína, ó Guð,
og lífgaðir örmagna landið,
11þar settist hjörð þín að, ó Guð,
þú annaðist hina þurfandi af gæsku þinni.
12Drottinn lætur boðskap út ganga,
heill her kvenna flytur sigurfréttina:
13„Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja,
en hún, sem heima situr, skiptir herfangi.
14Hvort viljið þér liggja milli fjár í réttunum?
Vængir dúfunnar eru lagðir silfri
og fjaðrir hennar glóandi gulli.“
15Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum
snjóaði á Salmon. [