Hjálpræði Guðs
1 Þess vegna ber okkur að gefa því enn betur gaum er við höfum heyrt svo að við berumst eigi afleiðis. 2 Fyrst orðið, sem englar fluttu,[ hefur reynst stöðugt og þau sem brutu gegn því og hlýddu ekki hlutu réttláta refsingu, 3 hvernig fáum við þá komist undan ef við vanmetum slíkt hjálpræði? Drottinn flutti það fyrst og þau sem heyrðu það staðfestu það fyrir okkur. 4 Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og með gjöfum heilags anda sem hann deildi út eftir vilja sínum.
Bróðir manna
5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim sem við tölum um. 6 Einhvers staðar er vitnað:
Hvað er maður að þú minnist hans?
Eða mannssonur að þú vitjir hans?
7Skamma stund [ gerðir þú hann englunum lægri.
Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri.
Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna. [
8Allt hefur þú lagt undir fætur hans.
Þótt skrifað sé að allt sé undir hann lagt og ekkert undan skilið, þá sjáum við ekki enn að allir hlutir séu undir hann lagðir. 9 En við sjáum að Jesús, sem „skamma stund var gerður englunum lægri,“ er „krýndur vegsemd og heiðri“ vegna dauðans sem hann þoldi. Fyrir Guðs náð skyldu allir hljóta blessun af dauða hans.
10 Guð hefur skapað allt og allt er til vegna hans. Hann vildi leiða mörg börn til dýrðar. Því varð hann að fullkomna með þjáningum þann Jesú er skyldi leiða þau til hjálpræðis. 11 Því að sá sem helgar og þau sem helguð verða eru öll frá einum komin. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þau systkin[12 er hann segir:
Ég mun gera nafn mitt kunnugt systkinum [ mínum,
ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.
13 Og aftur:
Ég mun treysta á hann.
Og enn fremur:
Hér er ég og börnin er Guð gaf mér.
14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði þá varð hann sjálfur maður, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gert þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, 15 og frelsað alla þá sem lifðu allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann. 16 Því að víst er um það að ekki tekur hann að sér englana en hann tekur að sér niðja Abrahams. 17 Því var það að hann í öllum greinum átti að verða líkur systkinum[ sínum svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. 18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu.