Í 103. Davíðssálmi stendur skrifað:

Dagar mannsins eru sem grasið,

hann blómgast sem blómið á mörkinni,

þegar vindur blæs á hann er hann horfinn

og staður hans þekkir hann ekki framar.

(Sl 103:15-16)

Þannig er lífshlaupið í hnotskurn að mati þess sem samdi þennan fallega sálm. En í raun er það nokkurt fals að birta aðeins þessar línur. Það tekur hlutina úr samhengi. Því í glæsilegri byggingu sinni þá er þessi sálmur meistaralega ortur og þessi vers hér að ofan eru í raun að „tala við“ versið á undan:

Því að hann þekkir eðli vort,

minnist þess að vér erum mold.

(Sl 103:14)

Þessi sálmur hefur það í „eðli“ sínu – ef svo má að orði komast um sálm – að hann boðar umfram allt gæsku Guðs og umburðarlyndi. Drottinn er staðfastur í elsku sinni til okkar og það er nákvæmlega það sem við skulum hafa hugfast. Það er leiðarstefið í þessum sálmi:

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,

þolinmóður og mjög gæskuríkur.

(Sl 103:8)

Sem kunnugt er kallast sá kafli sálmsins, sem ég hóf þetta greinarkorn á, við fræg orð úr Jesaja. Mögnuð orð sem margir þekkja og bókmenntafólk hefur oft gripið til og útfært með ýmsum hætti:

„Allt hold er gras

og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.

Grasið visnar, blómin fölna

þegar Drottinn andar á þau.

Sannlega eru mennirnir gras.

Grasið visnar, blómin fölna

en orð Guðs vors varir að eilífu.“

(Jes 40:6b-8)

En hvers vegna að rifja upp örlítið um þennan sálm? Jú, fyrir 65 árum kom út bók með smásögum og litlum brotakenndum leifturmyndum eftir Thor Vilhjálmsson. Þetta er skemmtileg bók og alveg þess virði að verða sér úti um hana og lesa, og skoða fallegu myndirnar sem hana prýða; magnaðar teikningar dregnar upp af höfundi.

Nú hefur einhver komið auga á það hvaðan Thor hafði titilinn á bókinni. Hann fær hann einmitt úr 103. sálmi Saltarans. Við vitum það fyrir víst því Thor vísar sérstaklega til sálmsins, birtir vers 15. og 16. og hefur sem einskonar tileinkun fremst í bókinni. Notast þar auðvitað við aðra þýðingu – hér að ofan er það 2007 þýðingin sem vitnað er til.

Hvað ætli það sé sem Thor sá í þessum versum? Jú örugglega hefur hann lesið sálminn frá upphafi til enda og það er ljóst að hann hefur í það minnsta þekkt þessar línur úr honum – bókin hefði aldrei fengið þetta nafn öðruvísi. Hitt má telja jafnvíst að Thor dregur þessi vers útúr vegna þess að séu þau lesin ein og sér má sjá í þeim ákveðna samsvörun við þá heimspeki sem mjög var uppi í Evrópu á þessum árum. Þessi heimspekistefna var kölluð existensíalismi og fékk heitið tilvistarstefna upp á íslensku. Mörgum þótti inntak hennar heldur myrkt og var illa við boðskapinn, eða niðurstöðu þessarar heimspeki. Hún greindi í raun frá tilgangslausri veru mannsins í jarðlífinu, hér væri ekki nokkur maður til neins nema tóra þetta líf og svo deyja. [Þetta er auðvitað gríðarleg einföldun].

En það er líka önnur tilvitnun sem Thor slær fram sem einkunnarorðum og hefur undir brotinu úr sálmi 103. Þar vitnar Thor Vilhjálmsson í Goethe og hefur á frummálinu, þýsku:

„Ja, wohl bin ich nur ein Wanderer, ein Waller auf der Erde! Seid ihr denn mehr?“

Þessar línur eru úr einu af frægari verkum skáldsins, þrátt fyrir að vera eitt af þeim fyrstu, Die Leiden des jungen Werthers. Bók þessi var íslenskuð og heitir á okkar tungu Raunir Werthers unga (1987) og var það Gísli Ásmundsson sem þýddi.

Nú lesa ekki allir þýsku og því rétt að skoða hvernig Gísli þýðir þessi orð:

„Já, ég er víst ekki annað en flakkari, pílagrímur á þessari jörð! Eruð þið svo sem nokkuð annað?“

Hér má strax sjá að þessi orð bera í sér samskonar tilvistarlega pælingu og lesa má út úr 15. og 16 versi 103. Davíðssálms: Við erum hér bara á flækingi, lifum skamma stund, svo er það búið.

Það er ekkert að þessari notkun á þessum versum – hvorki þeim úr sálminum góða né hinu úr Raunum Werthers unga. Það er fagnaðarefni þegar rithöfundar leita meðvitað í Biblíuna eftir efnivið til þess að skálda út af og/eða kallast á við samtíð sína.

Hinu skulum við samt ekki gleyma, þessi sálmur er fyrst og síðast um þetta:

 

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,

þolinmóður og mjög gæskuríkur.

(Sl 103:8)

 

 

 

 

Guðmundur Brynjólfsson