Á sunnudaginn, 24. febrúar n.k., er Biblíudagurinn. Dagur sem helgaður er hinni helgu bók. Dagur tekinn frá fyrir Biblíuna.

Til hvers? Kann einhver að spyrja.

Sú spurning er í raun ofur eðlileg. En ekki kannski á þeim forsendum sem okkur koma til hugar í fyrstu. Ekki vegna þess að það sé ekki þörf á því að minna á þetta ritasafn sem leggur grundvöll að trúarlífi langt yfir tveggja milljarða manna um víða veröld – aldrei verður góð vísa of oft kveðin og allt það – nei, það er hitt, þetta:

Hver erum við að minna á það sem minnir á sig sjálft og þarfnast okkar ekki? – en við þess.

Þegar hann lætur rödd sína þruma

heyrist vatnaniður í himninum,

hann sendir ský upp frá endimörkum jarðar

og lætur eldingar leiftra í regninu,

hann hleypir vindinum út úr geymslum hans.

Sérhver maður verður undrandi og skilningsvana,

hver gullsmiður skammast sín fyrir guðamyndir sínar

því að myndirnar, sem hann steypir, eru blekking,

í þeim er enginn lífsandi.

(Jeremía 51:16-17)

Raust Guðs sér um sig sjálf. Hún á gangveg um hjarta hvers ærlegs manns og við vitum ekki einu sinni hvaðan hún kemur. Hún er eins og vatnið sem sem við heyrum, vindurinn sem við vitum, eins og ilmur eldingarinnar, líkust áferð endimarka jarðar. Undraverð og illskiljanleg í senn, lítillát og auðskilin um leið. Án raka og reikningsdæma mannsins, en auðþekkjanleg þegar hún berst okkur. Kallar okkur til vitundar um æðri mátt. Kallar okkur til trúar. Og, kallar okkur til verka.

Því tökum við daginn frá.

Verðið gerendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þið sjálf ykkur. (Jakobsbréfið 1:22)

Orð Jesú Krists sér um sig sjálft.

Og hver erum við þá að minna á það sem minnir á sig sjálft og þarfnast okkar ekki? – en við þess.

Jú, við erum kölluð til orðsins og kölluð til þess að varðveita það og dreifa því – ella svíkjum við okkur sjálf. Frumkvæðið sem okkur er boðið að taka er ekki bara kristileg áminning um þokkalega breytni í von um góðan svefn. Heldur höfum við frumkvæðisskyldu – hún liggur í eðli þess að játa trú á meistarann mikla frá Nasaret; hún er kjarninn í því að viðurkenna að maður vilji vera í för „með manninum frá Nasaret, þessum Jesú.“

Því tökum við daginn frá.

Hið íslenska biblíufélag hefur það erindi að varðveita orðið og dreifa því. Það hefur verið verkefni félagsins frá stofnun þess árið 1815. Elsta starfandi félag landsins er ekki feimið við nýjungar. Það svarar kalli tímans, raust úr óskiljanlegum fjarska sem þó er nær. Hljóðbókavæðing, notkun snjalltækja og internetsins felur í sér ýmis ótrúleg tækifæri. Við grípum nú þessi tækifæri enda er Hið íslenska biblíufélag í sókn. Við höfum gert okkur verkáætlun og vinnum eftir henni: Biblían er nú þegar á snjallforriti, það stendur yfir hljóðupptaka á Nýja testamentinu þar sem nokkrir af færustu leikurum þjóðarinnar lesa, fyrir liggur að koma til móts við þarfir barnanna að því loknu. Í því sambandi höfum við ævintýralega skemmtilegt verkefni á prjónunum.

Hið íslenska biblíufélag er samt ekki neinn gullsmiður að steypa lífsandalausar blekkingarmyndir. Nei, aldeilis ekki, félagið er að svara, sinna frumkvæðisskyldu sinni og kalla kristna menn til verka. Dreifa orði Guðs. Gefa orð Guðs. Efla orð Guðs.

Því tökum við daginn frá.

Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það. (Lúkasarguðspjall 11:28)

 

Kær kveðja og Guðs góða blessun,
Guðmundur Brynjólfsson,
framkvæmdastjóri HÍB

 

Ef þú vilt vera gerandi orðsins en ekki bara heyrandi þess, þá er ekki vitlaust að taka þátt, það verður til þess að enn fleiri geta heyrt – og síðan gert:

https://www.karolinafund.com/project/view/2363