Það er ég
22 Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. 23 Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. 24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
25 En er langt var liðið nætur[ kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. 26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
28 Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
29 Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. 30 En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
32 Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. 33 En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“