5. kafli
Um föstu
33 En farísearnir og fræðimennirnir sögðu við Jesú: „Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar okkar en þínir eta og drekka.“
34 Jesús sagði við þá: „Hvort getið þið ætlað brúðkaupsgestum að fasta meðan brúðguminn er hjá þeim? 35 En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum.“
36 Jesús sagði þeim einnig líkingu: „Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla. 37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður en belgirnir ónýtast. 38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi. 39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt því að hann segir: Hið gamla er gott.“
6. kafli
Drottinn hvíldardagsins
1 En svo bar við á hvíldardegi að Jesús fór um sáðlönd og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu. 2 Þá sögðu farísear nokkrir: „Hví gerið þið það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“
3 Og Jesús svaraði þeim: „Hafið þið þá ekki lesið hvað Davíð gerði er hann hungraði og menn hans? 4 Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum en þau má enginn eta nema prestarnir einir.“ 5 Og hann sagði við þá: „Mannssonurinn er Drottinn hvíldardagsins.“