Refsidómur yfir Benjamín
1 Þá lögðu allir Ísraelsmenn af stað og safnaðist lýðurinn saman sem einn maður, frá Dan til Beerseba og einnig Gíleaðlands, frammi fyrir Drottni í Mispa. 2 Og höfðingjar alls lýðsins, allar ættkvíslir Ísraels, gengu fram í söfnuði þjóðar Guðs. Voru það fjögur hundruð þúsund menn, fótgangandi og vopnum búnir. 3Benjamínítar fréttu að Ísraelsmenn væru farnir upp til Mispa. Ísraelsmenn sögðu: „Segið frá hvernig þetta óhæfuverk bar að.“ 4 Þá svaraði Levítinn, maður konunnar sem drepin hafði verið, og sagði: „Ég kom til Gíbeu í Benjamín ásamt hjákonu minni og ætlaði að vera þar um nætursakir. 5 Þá réðust íbúar Gíbeu að mér, umkringdu húsið um nóttina og létu ófriðlega. Þeir ætluðu að drepa mig og nauðguðu hjákonu minni svo að hún beið bana af. 6 Þá tók ég hjákonu mína, hlutaði hana sundur og sendi hana út um allt erfðaland Ísraels því að þeir höfðu framið níðingsverk og óhæfu í Ísrael. 7 Þið eruð hér allir, Ísraelsmenn. Komið nú með ráð ykkar og tillögur.“
8 Þá reis allt fólkið upp sem einn maður væri og sagði: „Enginn okkar skal fara heim til sín og enginn snúa til heimkynna sinna. 9 Við skulum fara þannig með Gíbeu: Við skulum ráðast gegn henni eftir hlutkesti, 10 taka tíu menn af hverju hundraði af öllum ættkvíslum Ísraels og hundrað af þúsundi og þúsund af tíu þúsund til þess að sækja vistir handa liðinu. Þegar þeir koma aftur verður farið með Gíbeu í Benjamín eins og hún verðskuldar fyrir óhæfuverk það sem þeir hafa framið í Ísrael.“ 11 Þá sameinuðust allir Ísraelsmenn gegn borginni og voru allir samhuga sem einn maður væri.
12 Ættkvíslir Ísraels sendu menn um alla ættkvísl Benjamíns og létu þá segja: „Hvílík óhæfa er þetta sem framin hefur verið meðal ykkar? 13 Framseljið óþokkana í Gíbeu svo að við getum drepið þá og upprætt hið illa úr Ísrael.“ En niðjar Benjamíns gáfu engan gaum að orðum bræðra sinna, Ísraelsmanna. 14 Söfnuðust Benjamínítar þá saman úr borgunum til Gíbeu til þess að fara í hernað við Ísraelsmenn. 15 En niðjar Benjamíns, sem komu frá borgunum, voru á þeim degi tuttugu og sex þúsund vopnaðra manna auk Gíbeubúa. Þeir voru sjö hundruð að tölu og var það allt einvalalið. 16 Af þessu liði voru sjö hundruð úrvalsmenn örvhentir. Hæfðu þeir allir hárrétt með slöngvusteini og misstu ekki marks. 17 Að Benjamín frátöldum voru Ísraelsmenn alls fjögur hundruð þúsund vopnaðra manna og allir hermenn.