8. kafli
22 Þá sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: „Drottnaðu yfir okkur, þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefur frelsað okkur undan Midían.“ 23 En Gídeon sagði við þá: „Ekki mun ég drottna yfir ykkur og ekki mun sonur minn heldur drottna yfir ykkur. Drottinn skal drottna yfir ykkur.“ 24 Og Gídeon sagði við þá: „Ég vil biðja ykkur bónar. Gefið mér allir eyrnahringana sem þið hafið tekið að herfangi“ – en niðjar Ísmaels[ báru eyrnahringa úr gulli. 25 Þeir svöruðu: „Við gefum þér þá fúslega.“ Þeir breiddu út skikkju og köstuðu þangað hver og einn eyrnahringum þeim er þeir höfðu tekið að herfangi. 26 En þyngd þessara eyrnahringa úr gulli, sem hann hafði beðið
um, var sautján hundruð siklar gulls að frátöldum skrautmánum, eyrnaperlum og purpuraklæðum, sem Midíanskonungarnir báru, og festum þeim sem voru um hálsana á úlföldum þeirra. 27 Gídeon gerði úr þessu hökullíkneski og reisti það í borg sinni í Ofra og allur Ísrael tók þar fram hjá með honum. En það varð Gídeon og húsi hans að tálsnöru. 28 Þannig urðu Midíanítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og máttu aldrei síðan um frjálst höfuð strjúka. Var nú friður í landinu í fjörutíu ár meðan Gídeon var á lífi.
Dauði Gídeons
29 Því næst hélt Jerúbbaal Jóasson heim til sín og bjó í húsi sínu. 30 Gídeon átti sjötíu syni sem voru ávextir lenda hans því að hann átti margar konur. 31 Og hjákona hans, sem hann átti í Síkem, fæddi honum einnig son og hann nefndi hann Abímelek. 32 Gídeon Jóasson dó í hárri elli og var grafinn í gröf Jóasar, föður síns, í Ofra í landi Abíesersniðja.
33 Þegar Gídeon var dáinn tóku Ísraelsmenn enn á ný fram hjá með Baölum og gerðu Baal Berit[ að guði sínum. 34 Og Ísraelsmenn minntust ekki Drottins, Guðs síns, sem hafði frelsað þá úr höndum allra óvina þeirra umhverfis 35 og ekki sýndu þeir heldur ætt Jerúbbaals, það er Gídeons, hollustu fyrir allt það góða sem hann hafði gert fyrir Ísrael.
9. kafli
Abímelek
1 Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið: 2 „Talið svo í eyru allra Síkembúa: Hvort fellur ykkur betur að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir ykkur eða að einn maður drottni yfir ykkur? Minnist þess einnig að ég er hold ykkar og bein.“ 3 Móðurbræður hans mæltu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek og þeir sögðu: „Hann er bróðir okkar.“ 4 Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Baals Berits og Abímelek leigði fyrir þá þrjóta og lausamenn og gerðist fyrirliði þeirra. 5 Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, syni Jerúbbaals, alls sjötíu manns, á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, komst einn undan en hann hafði falið sig.