Lofsöngur Debóru og Baraks
1 Á þeim degi sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið:
2Lýðnum hlotnaðist frelsi í Ísrael
og fólkið kom af frjálsum vilja,
lofið því Drottin.
3Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar.
Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann,
lofsyngja Drottni, Guði Ísraels.
4Drottinn, þegar þú braust út frá Seír,
þegar þú brunaðir fram frá Edómsvöllum,
skalf jörðin, himinninn nötraði
og skýin létu vatnið streyma.
5Fjöllin bifuðust frammi fyrir Drottni,
sjálft Sínaí,
frammi fyrir Drottni, Guði Ísraels.
6Á dögum Samgars Anatssonar,
á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar
og vegfarendur fóru leynistigu.
7Leiðtogar höfðust ekkert að í Ísrael
uns þú komst fram, Debóra,
uns þú komst fram, móðir í Ísrael.
8Menn kusu sér nýja guði. [
Þá var barist við borgarhliðin.
Skjöldur sást hvorki né spjót
meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael.
9Hjarta mitt heyrir til leiðtogum Ísraels
sem komu fram af frjálsum vilja meðal fólksins.
Lofið Drottin.
10Þér sem ríðið hvítum ösnum,
þér sem hvílið á ábreiðum
og þér sem farið um veginn, hugsið um það.
11Með meiri háreysti en vatnsberarnir við vatnsþrærnar
skulu menn víðfrægja réttlætisverk Drottins,
réttlætisverk stjórnar hans í Ísrael.
Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum.
12Vakna, vakna, Debóra,
vakna, vakna, syngdu söng.
Af stað, Barak,
leið burt bandingja þína, sonur Abínóams.
13Þá fóru ofan þeir sem eftir voru af göfugmennunum,
lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna.
14Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn og hrópuðu:
„Vér fylgjum þér, Benjamín, og liði þínu.“
Ofan frá Makír fóru leiðtogar
og frá Sebúlon þeir sem bera stjórnsprotann,
15leiðtogarnir í Íssakar með Debóru,
og Íssakar var með Barak,
hann fór á eftir honum niður í dalinn.