Spámaðurinn missir konu sína
15 Orð Drottins kom til mín: 16 Mannssonur, nú svipti ég þig yndi augna þinna með sviplegum dauða. Þú skalt hvorki syrgja, gráta né fella tár. 17 Andvarpaðu í hljóði og viðhafðu ekki sorgarsiði. Þú skalt binda á þig höfuðklæði þitt og setja skó á fætur þér. Þú skalt hvorki hylja skegg þitt né neyta sorgarbrauðs.
18 Ég talaði við fólkið um morguninn. Eiginkona mín lést að kvöldi og ég gerði eins og fyrir mig hafði verið lagt morguninn eftir. 19 Þá spurði fólkið mig: „Viltu ekki segja okkur hvað það merkir sem þú gerir?“
20 Ég svaraði: Orð Drottins kom til mín: 21 Segðu við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Ég vanhelga helgidóm minn, hið háa varnarvirki ykkar sem er yndi augna ykkar og hjartans þrá. Synir ykkar og dætur, sem þið skiljið eftir, munu falla fyrir sverði. 22 Og þið munuð fara að eins og ég hef gert: Þið munuð hvorki hylja skegg ykkar né neyta sorgarbrauðs. 23 Þið munuð bera höfuðdúka og hafa skó á fótum. Þið munuð hvorki syrgja né gráta en veslast upp vegna synda ykkar og stynja hver með öðrum. 24 Esekíel mun verða ykkur tákn: Þið munuð fara að alveg eins og hann. Þegar það verður munuð þið skilja að ég er Drottinn Guð.
25 En þú, mannssonur, daginn, sem ég svipti þá varnarvirki sínu, gleði sinni og stolti, yndi augna þeirra og hjartans þrá, einnig sonum þeirra og dætrum, 26 á þeim degi kemur flóttamaður til þín og færir þér fréttir. 27 Á þeim degi lýkst munnur þinn upp og þú munt tala og ekki framar þegja. Þú verður þeim tákn og þeir munu skilja að ég er Drottinn.