18 Absalon hafði þegar í lifanda lífi látið sækja stein og reisa sér minnisvarðann sem nú er í Kóngsdalnum. Því að hann sagði: „Ég á engan son sem getur haldið nafni mínu á loft.“ Hann nefndi minnisvarðann eftir sér og enn í dag er hann nefndur Absalonsvarði.[
Davíð harmar Absalon
19 Akímaas Sadóksson sagði: „Ég ætla að flýta mér til konungsins og færa honum þá gleðifrétt að Drottinn hafi dæmt honum í vil gegn fjandmönnum hans.“ 20 En Jóab svaraði: „Í dag flytur þú ekki fagnaðartíðindi. Einhvern annan dag getur þú flutt gleðifrétt en í dag flytur þú ekki gleðifrétt því að sonur konungsins er dáinn.“ 21 Því næst skipaði Jóab Núbíumanni nokkrum: „Farðu og segðu konungi hvað þú hefur séð.“ Núbíumaðurinn varpaði sér niður frammi fyrir Jóab og hljóp síðan af stað.
22 En Akímaas Sadóksson hélt áfram og sagði við Jóab: „Mér er sama hvað gerist, ég ætla að hlaupa á eftir Núbíumanninum.“ Jóab spurði: „Hvers vegna viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, fyrst þú færð engin sögulaun?“[ 23 En Akímaas svaraði: „Mér er sama. Ég ætla að hlaupa þangað.“ „Hlauptu þá,“ sagði Jóab. Akímaas hljóp þá af stað, fór leiðina um Jórdanardalinn og varð á undan Núbíumanninum.
24 Davíð sat á milli beggja borgarhliðanna. Vörðurinn hafði gengið upp á þak hliðsins við borgarmúrinn og sá þá mann sem kom hlaupandi einsamall. 25 Vörðurinn kallaði til konungs og skýrði honum frá þessu en konungur svaraði: „Ef hann er einsamall flytur hann góðar fréttir.“ Þegar hann nálgaðist 26 kom vörðurinn auga á annan mann á hlaupum. Þá kallaði vörðurinn niður til hliðvarðarins: „Annar maður kemur einsamall á hlaupum.“ Konungur sagði: „Hann flytur einnig góðar fréttir.“ 27 Þá kallaði vörðurinn: „Nú sé ég að sá fyrri hleypur líkt og Akímaas Sadóksson.“ Konungurinn sagði: „Það er góður maður, hann flytur góðar fréttir.“
28 Akímaas hrópaði til konungs: „Heill sért þú,“ og varpaði sér fram á ásjónu sína frammi fyrir konungi og sagði: „Lofaður sé Drottinn, Guð þinn. Hann hefur selt þér þá menn í hendur sem hafa lyft hendi sinni gegn þér, herra minn og konungur.“ 29 Konungur spurði: „Er ungi maðurinn Absalon heill á húfi?“ Akímaas svaraði: „Ég sá mikla ringulreið þegar Jóab sendi mig, þjón þinn, af stað. Þess vegna veit ég ekki hvað gerðist.“ 30 Þá skipaði konungur: „Farðu til hliðar og stattu þar.“ Akímaas gekk þá til hliðar og stóð þar.
31 Í því kom Núbíumaðurinn og sagði: „Hér með færi ég þér, herra minn og konungur, þá gleðifrétt að Drottinn hefur í dag dæmt þér í vil gegn öllum sem risið hafa gegn þér.“ 32 Konungur spurði Núbíumanninn: „Er ungi maðurinn Absalon heill á húfi?“ Núbíumaðurinn svaraði: „Þess væri óskandi að allir fjandmenn þínir, herra minn og konungur, og allir sem rísa gegn þér hljóti sömu örlög og sá ungi maður.“