16. kafli
Absalon í Jerúsalem
15 Absalon var nú kominn til Jerúsalem ásamt Akítófel og öllum Ísraelsher. 16 Þegar Arkítinn Húsaí, vinur Davíðs, kom til Absalons hrópaði hann til Absalons: „Konungurinn lifi! Konungurinn lifi!“ 17 Absalon spurði þá Húsaí: „Er þetta tryggð þín við vin þinn? Hvers vegna fylgirðu ekki vini þínum?“ 18 Húsaí svaraði Absalon: „Ég stend með þeim sem Drottinn, fólkið hérna og allur Ísrael hefur kosið, honum ætla ég að fylgja. 19 Hver er það annars sem ég vil þjóna? Er það ekki sonur hans? Ég mun þjóna þér á sama hátt og ég hef þjónað föður þínum.“
20 Þá sagði Absalon við Akítófel: „Ráðleggið okkur nú hvað við eigum að gera?“ 21 Akítófel svaraði Absalon: „Gakk inn til hjákvenna föður þíns sem hann skildi hér eftir til að gæta hússins. Þá fréttir allur Ísrael að þú hafir gert föður þinn að hatursmanni þínum. Það eflir hugrekki allra fylgismanna þinna.“ 22 Tjaldi handa Absalon var nú slegið upp á þakinu og hann gekk inn til hjákvenna föður síns fyrir augum alls Ísraels.
23 Ráðlegging frá Akítófel var á þessum tíma metin til jafns við úrskurð frá Guði. Svo mikils máttu sín öll ráð Akítófels bæði fyrir Davíð og Absalon.
17. kafli
Húsaí blekkir Absalon
1 Síðan sagði Akítófel við Absalon: „Leyf mér að velja tólf þúsund menn og veita Davíð eftirför í nótt, 2 ráðast á hann á meðan hann er þreyttur og uppgefinn og skjóta honum skelk í bringu. Þá flýr allur her hans og ég get drepið konunginn einan. 3 Síðan get ég leitt þjóðina til þín eins og brúði sem kemur til manns síns.[ Þannig fellur sá maður sem þú vilt feigan en herinn sleppur án áfalla.“
4 Absalon og öllum öldungum Ísraels leist vel á þessa hugmynd. 5 Samt sagði Absalon: „Kallið Arkítann Húsaí hingað svo að við getum einnig heyrt skoðun hans.“ 6 Þegar Húsaí kom sagði Absalon honum hvað Akítófel hafði lagt til og spurði: „Eigum við að fara að hans ráðum? Ef ekki skaltu segja það?“
7 Húsaí svaraði Absalon: „Í þetta skipti hefur Akítófel ekki gefið gott ráð.“ 8 Og hann bætti við: „Þú þekkir föður þinn og menn hans og veist að þeir eru bardagahetjur og grimmir eins og birna á bersvæði sem rænd hefur verið húnum sínum. Faðir þinn er bardagamaður sem náttar ekki með hermönnum sínum. 9 Nú hefur hann sjálfsagt falið sig í einhverjum helli eða annars staðar. En verði mannfall í liði okkar í upphafi og berist fréttin um það út verður sagt: Herinn, sem fylgir Absalon, hefur beðið ósigur. 10 Þá mun jafnvel ljónhugað hreystimenni missa kjarkinn því að sérhver Ísraelsmaður veit að faðir þinn er hetja og að þeir sem fylgja honum eru hraustmenni. 11 Af þessum sökum legg ég þetta til: Kallaðu saman allan Ísrael frá Dan til Beerseba og fjöldinn verður sem sandkorn á sjávarströnd, og þú skalt sjálfur fara fyrir þeim. 12 Þegar við finnum hann, hvar sem það verður, leggjumst við yfir hann eins og dögg leggst yfir jörðina. Þá mun enginn komast undan, hvorki hann sjálfur né neinn manna hans. 13 Takist honum að hörfa inn í einhverja borg munum við Ísraelsmenn, allir sem einn, binda reipi utan um þá borg og draga hana niður í dalinn uns þar finnst ekki einu sinni steinvala.“
14 Þá sagði Absalon og allir Ísraelsmenn tóku undir: „Ráð Húsaí Arkíta er betra en ráð Akítófels.“ En Drottinn hafði ákveðið að gera hið góða ráð Akítófels að engu því að Drottinn ætlaði að steypa Absalon í glötun.