31 Þá var og sagt: Sá sem skilur við konu sína skal gefa henni skilnaðarbréf. 32 En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu drýgir hór.
Þegar þér talið
33 Enn hafið þér heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki vinna rangan eið en halda skaltu eiða þína við Drottin. 34 En ég segi yður að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, 35 né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs. 36 Og eigi skaltu sverja við höfuð þitt því að þú getur ekki gert eitt hár hvítt eða svart. 37 En þegar þér talið sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er kemur frá hinum vonda.